Engin áform uppi um önnur göng

Hvalfjarðargöng.
Hvalfjarðargöng. mbl.is/Sigurður Bogi

Stefnt er að því að umferð um Hvalfjarðargöng verði gjaldfrjáls að tæpum tveimur árum liðnum. Þá verða rúm 20 ár liðin síðan göngin voru formlega opnuð.

„Í september 2018 verða langtímalán uppgreidd. Um það leyti, samkvæmt samningum við ríkið, mun göngunum verða skilað þangað,“ segir Gísli Gíslason, stjórnarformaður Spalar sem á og rekur Hvalfjarðargöng, í samtali við mbl.is.

Umferð um göngin hefur verið mikil en í júlímánuði fóru til að mynda 295 þúsund ökutæki um Hvalfjarðargöngin. Rætt hefur verið um að gera þurfi ný göng til að anna mikilli umferð en Gísli segir Spöl ekki vera að undirbúa frekari framkvæmdir:

Boltinn er hjá ríkinu

„Spölur er ekki í neinum undirbúningi hvað það varðar. Við höfum hins vegar komið þeirri ábendingu áleiðis til ríkisins hvernig umferðarþróun hefur verið. Haldi sú þróun áfram er nokkuð ljóst að innan tíðar mun umferðin fara yfir öryggismörk sem reglugerðir segja til um,“ segir Gísli og bendir á að boltinn sé hjá ríkinu hvað þetta mál varði.

„Þá verður það ríkisins að taka ákvörðum um með hvaða hætti sá hluti málsins verði leystur. Það er nokkuð augljóst að fari umferðin upp fyrir þetta mark þá verða þau ekki rekin í óbreyttu formi miðað við þær reglur sem gilda.“

Síðla árs 2007 birti Spölur frétt þess efnis að miðað við stöðuna yrðu göngin skuldlaus og gjaldfrjáls átta árum síðar, árið 2015. „Miðað við umferðaraukninguna 2004 og miðað við það veggjald sem var innheimt þá leit út fyrir að langtímalánin yrðu greidd upp fyrr. Hins vegar var endursamið við lánardrottnana og vextir lækkaðir, lánstíminn festur í 2018 og veggjaldið lækkað,“ segir Gísli.

Komnir yfir það að hafa áhyggjur

Hann segir Spalarmenn ekki pirraða yfir því að engar áætlanir séu uppi um önnur göng. „Við höfum á síðustu árum verið að benda á hvaða þróun er fyrirsjáanleg. Við erum komnir yfir það að hafa áhyggjur af því með hvaða hætti verði brugðist við vegna þess að okkur sýnist að 2018 muni göngin áfram uppfylla ákvæði reglugerðar. Ríkið mun fá göngin afhent í því ástandi,“ segir Gísli og framhaldið eftir að ríkið fái göngin afhent sé því óljós:

„Hvað svo gerist eftir það verður bara að koma í ljós, hvernig þróunin verður í umferðinni. Útlitið er frekar á þann veg að menn þurfi að grípa til ráðstafana. Ef þróunin verður ekki á þann veg þá er það bara svo.“

Gísli Gíslason, stjórnarformaður Spalar.
Gísli Gíslason, stjórnarformaður Spalar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert