„All­ir al­menni­leg­ir skól­ar með skóla­draug“

Inga Mekkin Beck tók við Íslensku barnabókaverðlaununum í dag.
Inga Mekkin Beck tók við Íslensku barnabókaverðlaununum í dag. mbl.is/Golli

Rithöfundurinn Inga Mekkin Beck hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin árið 2016 í dag fyrir bókina Skóladraugurinn sem er jafnframt hennar fyrsta bók. 

„Ég hef verið að skrifa frá því í menntaskóla, það var þá sem mér fyrst datt í hug að ég gæti orðið rithöfundur,“ segir Inga í samtali við mbl.is eftir afhendinguna. 

Upphaflega ætlaði hún að senda inn annað handrit en ákvað að vinna frekar með Skóladrauginn. Inga segir verðlaunin vera mikla hvatningu fyrir hana til að halda áfram störfum sínum sem rithöfundur.

„Þessi viðurkenning er ómetanleg hvatning en á sama tíma þrýstingur til að halda áfram. Þegar maður er búinn að sýna fram á að maður getur þetta verður maður að sýna að maður getur gert meira.“

Hugmyndin rakin til gamla skólastjórans

Bókin fjallar um Gunnvöru sem á fyrsta skóladeginum heyrir söguna um skóladrauginn – gömlu söguna sem allir krakkarnir kunna utan að og eru löngu hættir að taka mark á. En Gunnvör hlustar því það gæti nefnilega komið sér vel fyrir hana ef draugar eru til.

„Ég rek þessa hugmynd aftur til þess að skólastjóranum í grunnskólanum mínum fannst svolítið gaman að stríða krökkunum og minntist oft í framhjáhlaupi á skóladrauginn. Ég ólst upp í þeirri trú að það væru allir almennilegar skólar með skóladraug.“

Í umsögn dómnefndar um verðlaunahandritið segir: „Skóladraugurinn er í senn spennandi draugasaga og trúverðug lýsing á barni sem misst hefur ástvin.“

Inga Mekkin Beck ávarpaði gesti við afhendingu verðlaunanna.
Inga Mekkin Beck ávarpaði gesti við afhendingu verðlaunanna. mbl.is/Golli

Verðlaunasjóður íslenskra barnabóka var stofnaður 30. janúar 1985 í tilefni af sjötugsafmæli Ármanns Kr. Einarssonar rithöfundar (1915–1999) og eru nú veitt í 30. sinn. Að sjóðnum standa fjölskylda Ármanns, bókaútgáfan Vaka-Helgafell, nú innan vébanda Forlagsins, IBBY á Íslandi og Barnavinafélagið Sumargjöf.

Megintilgangur sjóðsins er að örva fólk til að skrifa fyrir börn og unglinga og stuðla þannig að auknu framboði úrvalslesefnis fyrir æsku landsins. Sjóðurinn efnir árlega til samkeppni um Íslensku barnabókaverðlaunin sem veitt eru fyrir það handrit sem dómnefnd þykir best hverju sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert