Vilja menntamálin í forgang

Öll stúdentafélög háskóla á landinu standa að undirskriftasöfnun um að …
Öll stúdentafélög háskóla á landinu standa að undirskriftasöfnun um að stjórnvöld setji menntamál í forgang. mbl.is/Ómar Óskarsson

Stúdentafélög allra háskóla á Íslandi hafa hrundið af stað undirskriftasöfnun þar sem þess er krafist að stjórnvöld setji menntamál í forgang. Þau telja nemendur hafa alltof lengi búið við undirfjármögnun háskólanna og vilja að stjórnvöld fylgi settri stefnu um fjármögnun háskólakerfisins.

Í tilkynningu frá félögunum kemur fram að undirfjármögnunin bitni meðal annars á kennslu og aðstöðu í háskólunum og ekki síður á framþróun í samfélaginu. Enn fremur sé ljóst að ef ekki verði lagt meira fé til reksturs háskólakerfisins þurfi á endanum að fækka nemendum og draga úr fjölbreytileika í námsframboði.

Undirskriftasöfnunin fer fram á vefsíðunni haskolarnir.is Áskorun þeirra sem skrifa undir til stjórnvalda hljóðar svo:

„Meðalframlag íslenska ríkisins á hvern ársnema í háskóla er tæplega 1,3 milljónir króna. Ísland er þar langt á eftir nágrannaþjóðum sínum því framlagið nemur rúmlega 2,2 milljónum króna að meðaltali annars staðar á Norðurlöndum.

Í aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs er markmiðið að styrkja fjármögnun háskólakerfisins hér á landi svo hún verði að minnsta kosti sambærileg við meðaltal annarra norrænna ríkja árið 2020. Ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2017-2021 sýnir hins vegar að engan veginn er komið til móts við ofangreint markmið.

Viðvarandi undirfjármögnun háskólanna dregur úr framþróun í samfélaginu og samkeppnishæfni landsins. Enn fremur er ljóst að ef ekki er lagt meira fé til reksturs háskólakerfisins þarf á endanum að fækka nemendum og draga úr fjölbreytileika í námsframboði.

Við undirrituð krefjumst þess að stjórnvöld setji menntamál í forgang og framfylgi fyrrgreindum markmiðum um fjármögnun háskólakerfisins með það að leiðarljósi að jafnmikið fjármagn fylgi hverjum háskólanema hér á landi og nemum annars staðar á Norðurlöndum árið 2020.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert