Atvinnurekendajól í ár

Það verða fáir frídagar hjá jólasveinunum að þessu sinni.
Það verða fáir frídagar hjá jólasveinunum að þessu sinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðfangadag ber upp á laugardag í ár og því fá almennir launþegar hér á landi aðeins einn aukafrídag um jól og áramót, þ.e. mánudaginn 26. desember. Þegar svona háttar til hefur á seinni árum verið talað um atvinnurekendajól, sem er nýyrði.

Þessi staða kom síðast upp árið 2011 og þar áður árið 2005.

Á næsta ári ber aðfangadag upp á sunnudag og því fá launþegar frí mánudag og þriðjudag. Eins fellur nýársdagur á mánudag árið 2018 svo frídagarnir um jól og áramót verða því þrír samtals.

„Það eru engin ákvæði í kjarasamningum sem kveða á um að fjölga skuli frídögum þegar þeir verða fæstir af þeirri ástæðu að þeir lendi á laugardögum eða sunnudögum. Í ljósi mikils fjölda orlofsdaga er gjarnan svigrúm fyrir starfsmenn að óska eftir því að taka hluta af orlofi sínu til lengingar á jólafríi,“ segir Hannes G. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Fyrirtæki gáfu aukafrídag

Árið 2011, þegar aðeins einn frídagur var um jól og áramót, voru fluttar fréttir um að einstök fyrirtæki hefðu gefið starfsfólki aukafrídag til að bæta því frídagafæðina. Hverju og einu fyrirtæki er í sjálfsvald sett hvernig þau haga þessu og skipuleggja starfsemi sína, eða opnunar- og afgreiðslutíma.

Að sögn Hannesar G. Sigurðssonar eru sérstakir frídagar tiltölulega margir á Íslandi í alþjóðlegum samanburði, eða rúmlega 11 að meðaltali. Þeir eru mjög breytilegir milli ára eftir því hvort hluti þeirra lendir á laugardögum eða sunnudögum. Fæstir verða þeir 9 og flestir 13. Orlofsdagar eru einnig fleiri á Íslandi en víðast hvar, segir Hannes.

Geta flestir orðið fjórir

Frídagar um jól og áramót eru eðlilega mjög breytilegir eftir því á hvaða vikudögum þeir lenda, segir Hannes. Þeir geta fæstir orðið einn og flestir 4, en að meðaltali eru þeir tæplega 3. Á hverjum sjö árum eru 4 frídagar í þremur tilfellum, 3 frídagar í tveimur og 1 frídagur í tveimur. Líkurnar á því að frídagur lendi á virkum degi eru 5/7 og á helgi 2/7. Sama gildir t.d. um 1. maí, þ.e. líkurnar eru 5/7 að hann lendi á virkum degi.

Þess má geta í lokin að í dag eru 66 dagar til jóla.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert