Braut trúnað í aðdraganda neyðarlaga

Sturla Pálsson.
Sturla Pálsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Sturla Pálsson, starfsmaður Seðlabanka Íslands, viðurkenndi í skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara að hafa brotið trúnað með því að ræða stöðu mála við eiginkonu sína í aðdraganda þess að neyðarlögin voru sett árið 2008, en hún var á þeim tíma lögfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja.

Frá þessu er greint á vef RÚV.

Við skýrslutökuna sagðist Sturla hafa verið áhyggjufullur yfir því að bankarnir yrðu opnir mánudaginn 6. október 2008 og að setja hefði átt neyðarlögin deginum áður. Sagðist hann reikna með að í bönkunum væri að finna hreyfingar sem ættu uppruna sinn í því að menn töldu góðar líkur á að þeir færu á hausinn.

Samkvæmt RÚV hvíldi ströng þagnarskylda á þeim sem komu að málum fyrir hönd ríkisins og Seðlabankans. Við skýrslutökuna er endurrit úr símtali milli Sturlu og eiginkonu hans lagt fram, en það átti sér stað tveimur dögum fyrir setningu neyðarlagana.

Tjáði Sturla konu sinni m.a. að hugsanlega yrði einum banka bjargað og að Sigurjón Árnason, þáverandi bankastjóri Landsbankans væri búinn að gefast upp. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi þess að bankarnir voru starfandi á mánudeginum og því hægt að grípa til ráðstafana í ljósi upplýsinga af þessu tagi.

Sturla kvaðst sjálfur hafa brotið trúnað með því að ræða málið við eiginkonu sína en þegar blaðamenn Kastljóss settu sig í samband við hann sagðist hann ekki hafa tilkynnt brotið til Seðlabankans. Það gerði hann í síðustu viku.

Greinir á um upptöku símtalsins

Við skýrslutökuna greindi Sturla frá því að hann hefði orðið vitni að símtali milli Davíðs Oddssonar, þáverandi Seðlabankastjóra, og Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, 6. október 2008. Hann sagði Davíð hafa skipt sérstaklega um síma til að geta hljóðritað símtalið.

Frá þessu var greint í kvöldfréttum Stöðvar 2. Fréttastofan hefur vitnisburðinn undir höndum.

Umrætt símtal varðaði 500 milljóna evra lán til Kaupþings, sem féll þremur dögum síðar. Geir hefur lagst gegn því að símtalið verði gert opinbert.

Í Reykjavíkurbréfi sem birtist í Morgunblaðinu í febrúar í fyrra sagði frá því að tilviljun hefði ráðið því að símtalið var hljóðritað. Davíð Oddsson er ritstjóri Morgunblaðsins og mbl.is.

Frétt mbl.is: Ríkisstjórnin veitti Kaupþingi lánið

Sturla heldur því hins vegar fram að Davíð hafi rætt við Geir úr sínum síma þar sem sími Sturlu var hljóðritaður en ekki sími Davíðs.

Staðfestir Sturla það sem Davíð hefur haldið fram að það hafi verið vilji þáverandi ríkisstjórnar að veita Kaupþingi lánið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert