Breyttir tímar hjá Kristjáni

Kristján Finnbogason hefur nóg að gera í vinnunni, en þarf …
Kristján Finnbogason hefur nóg að gera í vinnunni, en þarf nýtt áhugamál og horfir til golfsins. mbl.is/Árni Sæberg

Aldursforseti Pepsi-deildar karla í knattspyrnu hefur ákveðið að leggja markmannshanskana á hilluna. „Ég hef verið að hætta undanfarin fimm ár, hætti í raun eftir tímabilið 2011, en nú segir bakið hingað og ekki lengra og því er sjálfhætt,“ segir Kristján Finnbogason, 45 ára gamall varamarkvörður FH undanfarin ár.

Kristján var fyrst valinn í meistaraflokkshóp hjá KR, þegar hann var 16 ára, og lék sinn fyrsta meistaraflokksleik á Íslandsmóti tveimur árum síðar, eða 1989. Síðan hefur hann leikið 268 leiki með KR, ÍA, FH og Fylki í efstu deild auk Evrópuleikja og 20 landsleikja, fyrir utan leiki með Lommel í Belgíu, Ayr í Skotlandi og Gróttu á Seltjarnarnesi. „Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, bauð mér að vera áfram en ég sagði honum að nú gæti líkaminn þetta ekki lengur,“ segir markvörðurinn fyrrverandi.

Fyrsti titillinn sérstakur

Aðlögunartíminn hefur verið langur og Kristján segir að með tilliti til aldursins sé eðlilegt að hann snúi sér að öðru, en engu að síður séu þetta mikil viðbrigði. „Ég hef verið í fótbolta alla ævi og það verður eflaust erfitt að vera ekki einu sinni lengur á hliðarlínunni, en nú get ég farið að einbeita mér að vinnunni og að finna annað áhugamál,“ segir hann, en Kristján hefur starfað í tölvubransanum í yfir tvo áratugi og vinnur hjá fyrirtækinu Despec sem flytur inn tölvutengdar vörur og kemur þeim til viðskiptavina.

Árangurinn heldur mönnum við efnið og þegar Kristján horfir til baka segir hann að titlarnir standi upp úr. „Þeir gefa þessu streði lit og meiningu,“ segir hann og bætir við að telji hann nýjustu tvo titla með FH með, þar sem hann hafi reyndar bara verið varamaður, hafi hann átta sinnum fagnað Íslandsmeistaratitli og fimm sinnum bikarmeistaratitli. „Þetta hafa allt verið eftirminnilegar stundir en fyrsti Íslandsmeistaratitillinn með KR 1999 stendur upp úr. Hann var mjög sérstakur, ekki síst vegna þess að félagið hafði beðið eftir honum í 31 ár.“

Kristján segir að fótboltinn hafi verið sérlega gefandi. „Þetta er frábær félagsskapur, ég hef eignast ótrúlega marga vini og kunningja í tengslum við boltann, farið í margar skemmtilegar æfingaferðir, landsliðsferðir og ferðir vegna Evrópuleikja. Ég þekki eiginlega ekkert annað en þetta umhverfi og á erfitt með að ímynda mér lífið án fótbolta. Ég upplifi því mikil viðbrigði en um leið er ég bjartsýnn á að eitthvað annað gott taki við með vinnunni og því finn ég fyrir ákveðinni ögrun. Kannski ég gefi mér tíma til þess að grípa í kylfu – ef bakið leyfir.“

Kristján Finnbogason tekur við Íslandsmeistarabikarnum úr höndum Eggerts Magnússonar, þáverandi …
Kristján Finnbogason tekur við Íslandsmeistarabikarnum úr höndum Eggerts Magnússonar, þáverandi formanns KSÍ, árið 2003. mbl.is/Þorkell Þorkelsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert