Segir valdið hafa verið hjá Seðlabanka

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.
Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. mbl.is/Golli

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, segir það ekki hafa verið sinn skilning að með samtali við Davíð Oddsson, þáverandi Seðlabankastjóra, 6. október 2008 hafi hann tekið ákvörðun um hvort Seðlabankinn veitti Kaupþingi 500 milljóna evra lán.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Geirs við fyrirspurnum Kastljóss.

„Mér var alla tíð ljóst að lögum samkvæmt fór Seðlabankinn með valdið til að veita þrautavaralán en ekki forsætisráðherra, sbr. áður tilvitnuð ummæli núverandi seðlabankastjóra. Það var hins vegar ekki óeðlilegt að seðlabankastjóri hefði samráð við forsætisráðherra við þessar óvenjulegu aðstæður,“ segir Geir, sem hefur ítrekað neitað að heimila birtingu símtalsins.

Í svari sínu segist Geir ekki hafa vitað af því að símtalið var hljóðritað og segist ekki geta fullyrt um tilgang þess. Hann segir forsætisráðherra ekki eiga að þurfa að sæta því að embættismenn ríkisins hljóðriti símtöl við hann án hans vitundar.

Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta og fjárstýringar hjá Seðlabanka Íslands, sagði í skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara árið 2012 að Davíð hefði sagt Geir að lánið fengist ekki endurgreitt og að ákvörðunin um lánveitinguna hefði í raun verið Geirs.

Sturla var viðstaddur þegar Davíð ræddi við Geir í síma.

Geir segir rétt að seðlabankastjóri hefði tjáð honum að óvíst væri um endurheimtur.

„Það kom ekki á óvart í ljósi þess að um neyðarlán var að ræða. Þá skiptir öllu máli að hafa tryggt veð eins og Seðlabankinn taldi að væri í þessu tilfelli, þ.e. FIH-bankinn í Danmörku. Engum gat dottið í hug að lána Kaupþingi stórfé án veðs vitandi að aldrei fengist neitt endurgreitt enda hefði það verið brot á lögum um Seðlabankann,“ segir Geir í svari sínu til Kastljóss.

Geir tekur það fram að Seðlabankinn hefði kannað það sérstaklega hjá Seðlabanka Danmerkur að veðið í FIH væri traust og fengið skýr svör um að svo væri. Seðlabankastjóri hefði ítrekað það í samtalinu að lánið yrði aldrei veitt nema gegn öruggu veði.

Forsætisráðherrann fyrrverandi segist ekki kannast við að hafa tjáð stjórnendum Kaupþings nokkru áður en lánið var veitt, að innan ríkisstjórnarinnar væri vilji til að Seðlabankinn veitti Kaupþingi lán.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert