Hætta á hörðum deilum á næsta ári

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, flytur ræðu á þinginu í dag.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, flytur ræðu á þinginu í dag. mbl.is/Ófeigur

Gylfi Arn­björns­son, for­seti ASÍ, fjallaði um árangur Alþýðusambandsins við setningu 42. þings sambandsins á Hilton Nordica í morgun. ASÍ væri sterkt afl og kallaði Gylfi eftir samstöðu innan sambanda sem eiga aðild að ASÍ, enda gæti stefnt í launadeilur á næsta ári.

„Fyrir utan söng og skemmtun var það vilji okkar í miðstjórn ASÍ að láta aldarafmælið snúast um innihald og árangur þessarar 100 ára baráttu launafólks fyrir jöfnuði og jöfnum tækifærum,“ sagði Gylfi í setningarræðu sinni.

Gylfi er á því að það hafi verið heillaspor fyrir ASÍ að slíta tengslin við Alþýðuflokkinn árið 1940. „ASÍ væri í dag ekki það afl sem það er, með meira en 115 þúsund félagsmenn og yfir 90% þátttöku í stéttarfélögum, ef svo hefði ekki verið. Þótt við séum ekki stór í alþjóðlegu samhengi vil ég leyfa mér að fullyrða að við erum heimsins sterkasta verkalýðshreyfing sem sinnir bæði mikilvægri hagsmunabaráttu í samskiptum við atvinnurekendur og stjórnvöld, en einnig beinni þjónustu og sjálfseflingu okkar félagsmanna daglega,“ sagði Gylfi og bætti því við að almennt launafólk þyrfti enn á öflugum málsvara að halda á pólitíska sviðinu.

Húsnæðismál hefðu verið rauður þráður í baráttu ASÍ allan tímann. Það væri því mikið ánægjuefni að tekist hefði að fá í gegn nýja löggjöf um verulega niðurgreiðslu á stofnkostnaði almennra íbúða til að leysa íbúðavanda tekjulægri heimila, ásamt skuldbindingu stjórnvalda um fjármagn til að byggja allt að 2.300 íbúðir á næstu fjórum árum. „Við erum þó staðfastlega þeirrar skoðunar að meira þurfi til,“ sagði Gylfi.

Frá setningu þingsins í morgun.
Frá setningu þingsins í morgun. mbl.is/Ófeigur

Launafólk ber ekki eitt ábyrgð á stöðugleika

Forsetanum varð tíðrætt um ólgu og deilur á vinnumarkaði. Aðildarsamtök ASÍ og BSRB hefðu gengið til samninga á forsendum stöðugleika í ársbyrjun 2014. Reyndar hefði tekist að koma verðbólgu niður fyrir verðbólgumarkmið Seðlabanka en fljótlega í kjölfar samninga hefði verið samið við aðra hópa um launahækkanir, langt umfram það sem almennt launafólk hefði fengið.

Skyndilega hafði orðið til ný launastefna fyrir háskólamenn, kennara og lækna sem mótaði nýjan farveg fyrir þá samninga sem fylgdu í kjölfarið, þar sem hugtakið „leiðrétting“ var lagt til grundvallar án tillits til efnahagslegra aðstæðna,“ sagði Gylfi og bætti því við að viðsemjendum ASÍ og stjórnvöldum hefði verið gert það ljóst að aðildarsamtök ASÍ myndu ekki una því að launafólki væri mismunað:

Það mun aldrei gerast í þessu landi að almennt launafólk beri eitt ábyrgð á stöðugleika efnahagsmála og lágri verðbólgu á meðan aðrir sækja sér aukinn kaupmátt með meiri launahækkunum.“

Stjórnmálamenn sátu á fremsta bekk.
Stjórnmálamenn sátu á fremsta bekk. mbl.is/Ófeigur

Norræna samfélagsmódelið

Gylfi vildi að menn stöldruðu aðeins við og veltu fyrir sér hugmyndinni um Norræna samfélagsmódelið. Það módel varð til við svipaðar aðstæður og þær sem við glímum nú við, bæði á vinnumarkaði og í samfélaginu í heild. Þar höfðu menn um árabil glímt við vanda ósamstæðrar hagstjórnar og innbyrðist ágreining á vinnumarkaði, þar sem lítil innistæða var oft fyrir þeim launahækkunum sem samið var um og hurfu síðan jafn óðum með breytingum á gengi og verðlagi. 

„Ég held að okkur sé nauðsynlegt að horfast í augu við þá staðreynd að það er mörgu um að kenna hversu illa okkur Íslendingum hefur gengið að tryggja varanlegan stöðugleika í efnahags- og félagsmálum.“

Til að hægt sé að stefna að svona líkani þurfi að ríkja traust á milli allra aðila. „Traust á milli viðsemjenda, traust og samstaða innan verkalýðshreyfingarinnar, traust á milli vinnumarkaðar og stjórnmálanna, ekki bara meirihluta heldur allra flokka og síðast en ekki síst traust á milli stjórnenda og starfsmanna fyrirtækja og stofnana til að geta fylgt þessari aðferðafræði eftir.“

Áðurnefnd samningslíkön hafa verið kölluð miðstýrð dreifstýring. „Þau eru miðstýrð hvað varðar ákvarðanir um kostnaðarsvigrúm kjarasamninga, en umfang þess ræður úrslitum um getu seðlabankans til að halda vöxtum lágum og genginu stöðugu og þar með verðbólgunni lágri. Frændur okkar á Norðurlöndunum tala gjarnan um að þessi þáttur kjarasamninga snúist um almannaheill; að það séu hagsmunir heildarinnar að verðlag sé stöðugt og vextir lágir og því verði allir að leggja sitt af mörkum til að ná slíkum stöðugleika og viðhalda honum.“

Ekki hefur náðst samkomulag um jöfnun lífeyrisréttinda og þar með fellur vilyrði frá því að taxtalaunahópar á opinberum vinnumarkaði njóti launaskriðstryggingar. „Frá okkar sjónarhóli er það alveg skýrt að forsenda fyrir því að hægt verði að skapa sátt á vinnumarkaði um nýtt og breytt samningalíkan er að jafnræði sé milli hópanna varðandi lífeyrismál og launaskrið. Nú er því mikil óvissa um framvindu þessara mála.“

Að lokum benti Gylfi á að ASÍ gæti staðið í deilum á næsta ári í þeirri viðleitni að standa vörð um hagsmuni félagsmanna. „Hætta er við að sú deila verði býsna hörð og langvarandi og kalli á mikla samstöðu innan okkar raða. Verum því minnug þess að afl okkar felst í samstöðunni, það er með henni sem við getum haldið áfram að breyta  þessu þjóðfélagi til betri vegar.“

Frá þingsetningu á Nordica.
Frá þingsetningu á Nordica. mbl.is/Ófeigur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert