Vilja lagasetningu um lífeyrismál

Þórunn Sveinbjarnardóttir er formaður BHM.
Þórunn Sveinbjarnardóttir er formaður BHM. mbl.is/Sigurður Bogi

Bandalag háskólamanna (BHM) hvetur stjórnmálaflokka til að beita sér fyrir lagasetningu um lífeyrismál. Bandalagið sendi formönnum stjórnmálaflokkanna bréf þess efnis.

Þar er rifjað upp að í september undirrituðu bandalög opinberra starfsmanna samkomulag við ríki og sveitarfélög um breytingar á skipan lífeyrismála.

Þegar frumvarpsdrögin hafi verið kynnt hafi komið í ljós að þau voru ekki að öllu leyti í samræmi við ákvæði samkomulagsins. Við það hafi sérfræðingar bandalaganna gert athugasemdir, án þess að tillit væri tekið til þess í ráðuneytinu, eins og segir í bréfinu.

Eftir að frumvarpið hafi verið tekið til meðferðar á Alþingi hafi BHM sent ítarlega umsögn um það til fjárlaganefndar með breytingartillögum. Hins vegar hafi ekki tekist að ljúka afgreiðslu málsins á Alþingi fyrir þingfrestun. 

„Eftir nokkra daga verður kosið til Alþingis. Nýtt þing hefur möguleika á því að ljúka þessu máli með farsælum hætti og í góðri sátt við bandalög opinberra starfsmanna. Með bréfi þessu vil ég hvetja þig og þín stjórnmálasamtök til að beita sér fyrir slíkri lausn um leið og nýtt þing kemur saman. Bandalag háskólamanna er reiðubúið að leggja sitt af mörkum til að unnt verði að skapa sátt um lagasetningu fyrir áramót í samræmi við samkomulag það sem fulltrúar ríkis, sveitarfélaga og bandalaga opinberra starfsmanna undirrituðu 19. sept. sl.,“ segir í niðurlagi bréfsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert