Andlát: Dr. Jónas Bjarnason

Dr. Jónas Bjarnason
Dr. Jónas Bjarnason

Dr. Jónas Bjarnason, efnaverkfræðingur, lést á líknardeild Landspítalans 21. október, 78 ára gamall. Hann var fæddur á Sauðárkróki 23. júní 1938, sonur Ástu Jónasdóttur húsmóður og Bjarna Pálssonar vélstjóra og framkvæmdastjóra.

Jónas varð stúdent frá MR 1958. Hann lauk prófi í efnaverkfræði 1965 og doktorsprófi, dr. rer. nat., frá Technische Hochschule í München 1967. Jónas stundaði framhaldsnám í næringarfræði við Cambridgeháskóla 1967-68 og rannsóknir í eldsneytistækni við TU Clausthal, Zellerfeld 1981.

Jónas var sérfræðingur á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins 1968-83. Dósent við HÍ 1971-81, forstjóri Framleiðslueftirlits sjávarfurða 1983-84 og deildarstjóri og yfirverkfræðingur á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins 1984-99.

Hann var m.a. formaður BHM 1974-78, formaður Nordisk akademikerråd 1976-77 og formaður Landsmálafélagsins Varðar 1984-89. Hann var forseti NLFÍ 1987-91 og félagi í Vísindafélagi Íslendinga frá 1976.

Jónas skrifaði m.a. bækurnar Saltfiskverkun og Skreiðarvinnsla auk handrits að bók um saltsíldarverkun. Þá skrifaði hann fjölmargar greinar og var fastur kjallarahöfundur í Dagblaðinu og DV um árabil.

Eftirlifandi eiginkona hans er Kristín Guðrún Hjartardóttir, fyrrverandi skrifstofustjóri. Sonur þeirra er Jónas Örn héraðsdómslögmaður og á hann þrjá syni.

Útförin verður gerð frá Dómkirkjunni 1. nóvember kl. 15.00.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert