Bræður urðu feður sama dag

Sigurður og Aldís Arna Tryggvadóttir með nýfædda dótturina.
Sigurður og Aldís Arna Tryggvadóttir með nýfædda dótturina.

Bræðurnir Sigurður og Kristján Guðmundssynir hafa alla tíð verið mjög samrýndir og því kom það ekki endilega á óvart þegar eiginkonur þeirra eignuðust barn með um þriggja tíma millibili í vikubyrjun. „Tímasetningin er skemmtileg tilviljun,“ segir Sigurður. „Þetta var að minnsta kosti ekki planað,“ segir Kristján.

Sigrún Kristjánsdóttir og Guðmundur Sigurðsson, foreldrar bræðranna, búa á Hvanneyri og þar ólust þeir upp. Davíð, yngsti sonur þeirra, býr hjá foreldrum sínum en er nú á stúdentagarði vegna háskólanáms í Reykjavík. Ástríður, dóttir þeirra, á heima í Skorradal, Sigurður og fjölskylda fluttu aftur til Hvanneyrar fyrir um tveimur árum og Kristján, sem býr í Lundarreykjadal, flytur á æskuslóðirnar með sinni fjölskyldu um áramót.

„Við búum öll nálægt hvert öðru og það hefur alltaf verið gott samband okkar á milli,“ segir Sigurður um fjölskylduna og tengslin við Kristján. „Hann er átta árum yngri en ég og ég passaði hann oft.“ Kristján tekur í sama streng og segir að Sigurður hafi byrjað snemma í pössuninni eins og Ástríður. „Þau voru örugglega bæði ljúf og góð,“ segir hann. Sigurður bætir við að þegar leiðir hafi skilið vegna skólagöngu og vinnu hafi sambandið samt aldrei rofnað og börnin þeirra hafi enn eflt tengslin.

Önnur „tvenna“

Sigurður og Aldís Arna Tryggvadóttir, eiginkona hans, eiga nú fjögur börn og Kristján og Eydís Smáradóttir tvö. Yngstu börnin eru jafngömul og eiga sama afmælisdag og hálft ár er á milli næstyngstu barnanna, sem eru tveggja og hálfs og þriggja ára. „Við höfum sameinast í barnauppeldinu,“ segir Sigurður.

Eydís var bókuð í keisaraskurð á sjúkrahúsinu á Akranesi sl. mánudagsmorgun, en gert var ráð fyrir að Aldís Arna myndi eiga í næstu viku. Stórfjölskyldan kom saman í kaffi og kökur hjá Guðmundi og Sigrúnu á Hvanneyri síðdegis á sunnudag. „Aldís Arna sagði oft í gríni við Eydísi að hún yrði ábyggilega komin með barn á undan þeim Kristjáni, en á sunnudaginn voru litlar líkur á því,“ segir Sigurður. „Við kvöddum þau með þeim orðum að við vonuðum að allt gengi vel hjá þeim daginn eftir, en þau voru á leið á sjúkrahúsið á Akranesi til þess að undirbúa keisaraskurðinn.“

Bílastæðið við hliðina

Aldís Arna missti vatnið rétt fyrir klukkan þrjú aðfaranótt mánudags og þau Sigurður voru mætt á sjúkrahúsið um hálftíma síðar. „Það var mjög súrrealískt að það fyrsta sem ég sá var bíll bróður míns og laust bílastæði við hliðina. Að sjálfsögðu lagði ég í það. Skömmu eftir að kona mín var búin að fæða dóttur okkar um klukkan hálf sjö rölti ég að næsta herbergi, bankaði og gekk inn þar sem Kristján og Eydís sváfu. Þar mætti mér mjög skemmtilegur svipur þeirra enda áttuðu þau sig á hvað var í gangi. Þetta var mjög skemmtileg stund, við föðmuðumst og ég hélt síðan áfram að sinna konu minni og barni en rúmlega þremur tímum seinna kom sonur þeirra í heiminn. Við pabbarnir hittumst svo næst í hádegismat stuttu síðar.“ Kristján segir að hann hafi ekki átt von á bróður sínum á þessari stundu. „Það fyrsta sem ég hugsaði var að þetta verður keppnismanneskja, varð að vera á undan frænda sínum, eins og pabbi hennar, en hann er með óþrjótandi keppnisskap.“

Stórfjölskyldan var óvænt saman á mánudag. „Það var mjög hentugt fyrir fjölskylduna að þurfa bara að koma í eina heimsókn til þess að heilsa upp á okkur og rölta á milli samliggjandi herbergja,“ segir Sigurður. „Frændurnir sem eru tveggja og hálfs og þriggja ára hlupu á milli stofa og skemmtu sér manna best. Þetta var hálfgerð innrás á fæðingardeildina þegar þeir mættu,“ botnar Kristján.

Kristján og Eydís Smáradóttir með nýfæddan soninn.
Kristján og Eydís Smáradóttir með nýfæddan soninn.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert