Bylgja upplausnar í boði Alþingis

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambandsins, segir kjararáð staðráðið í að brjóta á bak aftur sameinglega launastefnu sem aðilar vinnumarkaðarins hafa sæst á og segir að ef Alþingi afturkallar ekki launahækkanir til æðstu embættismanna verði næsta bylgja upplausnar á vinnumarkaði í boði þess.

Samninganefnd ASÍ krefst þess að ákvörðun kjararáðs um verulegar launahækkarnir til þingmanna, ráðherra og forseta verði dregin til baka. Í ályktun sem nefndin sendi frá sér síðdegis er bent á að laun þessara embættismanna hafi hækkað um allt að 75% á undanförnum þremur árum á sama tíma og almenn laun í landinu hafi hækkað um 29%.

„Ef kjararáð ætlar einhendis að snúa öllum vinnumarkaðnum yfir á aðra línu þá er það ekki á grundvelli laga um kjararáð. Kjararáð á að fylgja þeirri launalínu og launastefnu sem er í landinu, það segja lögin,“ segir Gylfi í samtali við Mbl.is og telur kjararáð hafa farið fram úr lagaheimildum sínum með ákvörðuninni sem sé ekki í samræmi við neina þróun í landinu.

Komið í höfrungahlaup við sjálft sig

Kjararáði beri að fylgja almennri launaþróun í landinu samkvæmt lögum. Vilji nýkjörið Alþingi koma á stöðugleika og sátt á vinnumarkaði verði það að afturkalla ákvörðun kjararáðs því ráðið sé á ábyrgð þess. 

„Ef ekki þá er alveg klárt að næsta bylgja óstöðugleika og upplausnar á vinnumarkaði verður einfaldlega í boði Alþingis,“ segir Gylfi.

Gylfi telur lítið fara fyrir rökstuðningi í ákvörðun kjararáðs. Í henni er vísað til fordæmis kjaradóms um að laun þingmanna séu í samræmi við laun héraðsdómara og ráðherra við hæstaréttardómara. Gylfi bendir á að kjararáð hafi hækkað laun dómara í desember og sé því nú komið í höfrungahlaup við sjálft sig.

„Kjararáð er greinilega staðráðið í því að brjóta á bak aftur þá sameiginlegu launastefnu sem allur vinnumarkaðurinn sætti sig á. Þetta er þriðji úrskurðurinn þar sem kjararáð fer gegn rammasamkomulaginu. Það geta ekki verið rök fyrir kjararáð að kjararáð hafi ákveðið. Þess vegna köllum við Alþingi til ábyrgðar. Það er Alþingis að grípa inn í þegar kjararáð starfar ekki á grundvelli þeirra laga sem sett eru. Það hlýtur að vera eitthvað meiriháttar galið við þessi lög ef þessi fámenni hópur á að móta launastefnu í landinu. Vilji Alþingi það þá munum við bara fylgja því. Það er engin sátt um þetta svona,“ segir Gylfi.

Frá fundi samninganefndar ASÍ síðdegis í dag.
Frá fundi samninganefndar ASÍ síðdegis í dag. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert