Rannsakar „Viðlagasjóðshúsin“

Hluti af Viðlagasjóðshúsunum svokölluðu.
Hluti af Viðlagasjóðshúsunum svokölluðu. Ljósmynd/Aðsend

Kristjana Aðalgeirsdóttir, sem er í doktorsnámi við arkitektadeild Aalto-háskólans í Finnlandi, hefur fengið mjög góð viðbrögð við könnun vegna Viðlagasjóðahússanna svokölluðu sem voru reist hér á landi eftir eldgosið í Vestamannaeyjum árið 1973.

„Ég setti þetta á netið í gær og í morgun var ég búin að fá yfir 110 svör,“ segir Kristjana, sem hefur búið til viðburð á Facebook í tengslum við könnunina. 

Yfir 500 einingahús flutt til Íslands

Eftir gosið voru flutt hingað til lands rúmlega 500 einingahús og voru þau byggð á um 20 stöðum á landinu til að mæta húsnæðisþörfum Eyjamanna. Þau hafa síðan þá verið heimili fjölmargra Íslendinga.

Könnun Kristjönu er hluti af rannsóknarverkefni við Aalto-háskólann um enduruppbyggingu eftir náttúruhamfarir. Vonast hún til að sem flestir núverandi og fyrrverandi íbúar sjái sér fært að svara spurningum um húsin, sem bæði snúast um þróun og breytingar en einnig upplifun fólks af að búa í þeim.

„Það virðist vera mikill áhugi á þessu og mjög jákvæður tónn hjá flestum sem hafa skrifað mér. Fólk er að senda mér myndir og sögur,“ greinir Kristjana frá.

Hér má sjá könnunina

Ljósmynd/Ásdís Ásgeirsdóttir

Húsin urðu eftir

Hún segir að þegar húsin hafi verið flutt inn hafi þau verið lítið þekkt hér á landi en aftur á móti mikið notuð í Skandinavíu. „Það var ekki vitað hvort það væri möguleiki fyrir Eyjamenn að flytja aftur til baka. Svo kom í ljós að meirihluti þeirra hafði möguleika á því. Þessi hús urðu eftir í íbúðahverfum Íslands á fjölmörgum stöðum.“

Úr bráðabirgðahúsnæði sem fyrst

Kristjana segir merkilegt að skoða hvernig hús sem þessi þróast. Þau hafi mörg hver aðlagast íslenskum aðstæðum og breyst mikið á meðan önnur hafa breyst minna.

Einnig sé merkilegt að skoða þau í samhengi við viðbrögð þjóða við náttúruhamförum en talað hefur verið um nauðsyn þess að stytta tímann sem fólk þarf að dvelja í bráðabirgðahúsnæði. „Eitt af því sem er verið að skoða almennt er að koma fólki sem fyrst í framtíðarhúsnæði og finna lausnir til þess.“

Að sögn Kristjönu verður könnunin opin fram í miðjan desember og vonast hún eftir enn fleiri svörum en þegar eru komin.  Í vor mun hún síðan vinna úr upplýsingunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert