Ofurmáninn felur sig í skýjunum

Ofurmáninn á himni yfir Búrma í dag.
Ofurmáninn á himni yfir Búrma í dag. AFP

Yfirgnæfandi líkur eru á því að ofurmáninn sem verður á himni síðdegis, muni ekki sjást frá Íslandi. Til þess er skýjahulan of þykk. Þetta segir veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Mögulegt er að glitta muni í mánann á Norður- og Norðausturlandi. Þar verður þó frekar skýjað. „Það verða þó einhver göt. En hvort það er nóg til að það sjáist í tunglið er alls óvíst,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur. „En hér sunnan- og vestalands eru yfirgnæfandi líkur að það sjáist ekki uppúr.“

Í dag er svo­kallaður „of­ur­máni“ á himni en það kall­ast fullt tungl þegar það er inn­an við 367.607 kílómetra frá jörðu. 

Fullt tungl hef­ur ekki verið svo ná­lægt jörðu í 68 ár, eða síðan 26. janú­ar 1948, og er það nú í um 356.523 kílómetra fjar­lægð. Á Stjörnu­fræðivefn­um kem­ur fram að tunglið sé mis­langt frá jörðu vegna þess að það er á sporöskju­laga braut um hana. Eft­ir 18 ár eða hinn 25. nóv­em­ber 2034, verður fullt tungl 75 kílómetrum nær okk­ur en nú er.

Horfið sem oftast á tunglið

„Um leið og sól­in sest í dag byrj­ar tunglið að rísa í austri. Fólki ætti því að horfa þangað ef veður leyf­ir,“ sagði Sæv­ar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, í Morgunblaðinu í dag. Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um á vef Veður­stofu Íslands mun sól­in setj­ast klukk­an 16.29 í dag. 

„Ég hvet alla til að horfa sem oftast upp til tunglsins. Það er stórmerkilegt og gullfallegt hvort sem að það er nálægasta tungl ársins eða ekki,“ sagði Sævar Helgi ennfremur.

Máninn yfir Heathrow-flugvelli í London í fyrrinótt.
Máninn yfir Heathrow-flugvelli í London í fyrrinótt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert