Andlát: Gunnar Eyjólfsson

Gunnar Eyjólfsson leikari er látinn níutíu ára að aldri. Hann var fæddur 24. febrúar 1926 og ólst upp í Keflavík. Hann lauk prófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1944, hóf leiklistarnám fljótlega eftir það og fyrsta hlutverk hans á sviði var í uppfærslu Leikfélags Reykjavíkur á Kaupmanninum í Feneyjum árið 1945.

Á sjötta áratugnum var Gunnar búsettur í Bandaríkjunum þar sem hann m.a. vann sem flugþjónn hjá Pan American. Hann sneri svo heim og var fastráðinn í Þjóðleikhúsinu árið 1960. Meðal helstu hlutverka hans þar voru Galdra-Loftur, Hamlet, Jagó í Óþelló, Faust, Willy Loman í Sölumaður deyr og skipstjórinn í Hart í bak. Síðasta hlutverk Gunnars var þegar hann, 85 ára, lék gyðinginn í Fanney og Alexander hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Sviðshlutverkin urðu vel á annað hundrað, flest í Þjóðleikhúsinu. Enn fremur lék Gunnar í fjölda kvikmynda. Þar má nefna Lénharð fógeta, 79 af stöðinni, Paradísarheimt, Atómstöðina, Milli fjalls og fjöru, Hafið og Mamma Gógó.

Gunnar hlaut Shakespeare-verðlaunin hjá RADA, fyrstur útlendinga, vann Tennent-verðlaunin og Silfurlampann árið 1963 fyrir túlkun sína á Andra í Andorra og Pétri Gaut. Hann fékk Edduverðlaunin fyrir leik sinni í kvikmyndinni Hafinu, fékk heiðursverðlaun Grímunnar fyrir ævistarf sitt í þágu sviðslistar á Íslandi 2013 og var heiðurslaunalistamaður Alþingis. Gunnar hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 1999 og Stefaníustjakann fyrir störf sín að leiklist árið 2006.

Auk leiklistar sinnti Gunnar fjölmörgum öðrum störfum. Hann starfrækti Talskólann í Reykjavík um árabil, sinnti kennslu, starfaði í Alþýðuflokknum um árabil, í Þjóðleikhúsráði og í menntamálaráði.  Hann var skátahöfðingi Íslands á árunum 1987-1995, var andlegur leiðtogi Ólympíulandsliðs Íslands í skák, tók virkan þátt í starfi kaþólsku kirkjunnar og innleiddi qi gong á Íslandi, sem er kínversk hugleiðsla og æfingar, sem margir iðka. Ævisaga Gunnars, Alvara leiksins, sem Árni Bergmann skráði, kom út árið 2010.

Eftirlifandi eiginkona Gunnars er Katrín Arason, f. 1926. Dætur þeirra eru Karitas Halldóra, f. 1960, og Þorgerður Katrín, f. 1965. Barnabörnin eru fimm.

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert