Lögreglumaðurinn ákærður fyrir spillingu

Lögreglumaðurinn er ákærður fyrir spillingu og brot í starfi.
Lögreglumaðurinn er ákærður fyrir spillingu og brot í starfi. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Lögreglumaður sem handtekinn var fyrir síðustu áramót og sat í gæsluvarðhaldi vegna meintra óeðlilegra sam­skipta við brota­menn er sagður hafa upplýst karlmann um stöðu skoðunar fíkniefnadeildar lögreglunnar á málefnum tengdum honum. Þá hafi hann upplýst um nöfn og hlutverk lögreglumanna í deildinni, innra skipulag og málefni fíkniefnadeildar og hver væri upplýsingagjafi hjá deildinni. Þetta kemur fram í ákæru málsins sem mbl.is hefur undir höndum, en í síðustu viku var greint frá að ríkissaksóknari hafi ákveðið að gefa út ákæru í málinu.

Frétt mbl.is: Fíkniefnalögreglumaður ákærður

Í ákærunni segir að lögreglumaðurinn hafi á tveggja ára tímabili upplýst brotamanninn um skráningar í upplýsingakerfi lögreglunar. Þá er hinn karlmaðurinn einnig ákærður fyrir hlutdeild í meintum brotum með að hafa óskað eftir og hvatt lögreglumanninn að veita sér þessar upplýsingar. Varða þessi atriði við brot gegn þagnarskyldu í starfi.

Mennirnir tveir eru svo ákærðir fyrir spillingu með því að lögreglumaðurinn hafi látið brotamanninn lofa sér og tekið við tveimur símum sem greiðslu fyrir upplýsingarnar. Þá heimtaði lögreglumaðurinn í SMS-skilaboðum einnig að fá peninga frá hinum manninum í tengslum við samskipti þeirra.

Í þriðja lið ákærunnar eru lögreglumaðurinn og þriðji maður ákærðir fyrir spillingu. Þriðji maðurinn starfar sem framkvæmdastjóri fyrirtækis hér á landi. Segir að lögreglumaðurinn hafi látið hinn manninn lofa sér 500 þúsund króna peningagreiðslu og tveimur flugmiðum með WOW-air gegn því að lögreglumaðurinn útvegaði skýrsluna „Slitastjórn Kaupþings banka hf. „Project Staying Alive“ September 2010. Strictly confidential,“ sem PriceWaterHouseCoopers gerði um Kaupþing banka. 

Einnig er lögreglumaðurinn ákærður fyrir brot í opinberu starfi fyrir að hafa ekki gætt lögmætra aðferða við meðferð máls eða úrlausn þegar hann var í upplýsingasambandi við brotamanninn án vitundar yfirmanna sinna. Þá er lögreglumaðurinn ákærður fyrir að hafa um 1-2 mánaða skeið gerst sekur um „stórfellda og ítrekaða vanrækslu og hirðuleysi í starfi sínu“ með því að hafa geymt amfetamín og stera í skrifborðsskúffu á vinnustað sínum en ekki gengið frá efnunum í samræmi við reglur. Að lokum er hann einnig ákærður fyrir „stórfellda og ítrekaða vanrækslu og hirðuleysi í starfi sínu“ með því að hafa varðveitt tvær loftskammbyssur í skrifborðsskúffunni. Taldi lögreglumaðurinn að þær hefðu verið haldlagðar, en gat ekki skýrt hvaða máli þær tengdust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert