Bjarni og Katrín funda í dag

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is

Fyrirhugað er að formenn Sjálfstæðisflokksins og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir, fundi í dag um mögulegt ríkisstjórnarsamstarf flokkanna.

Katrín staðfestir þetta í samtali við mbl.is en leggur áherslu á að um óformlegar viðræður sé að ræða til þess að kanna hvort einhver grundvöllur sé fyrir samstarfi flokkanna.

Flokkarnir tveir hafa samanlagt 31 þingmann og þurfa fyrir vikið einn til viðbótar til þess að hafa minnsta mögulega meirihluta en 63 þingmenn sitja á þingi. Fyrir vikið er ljóst að þriðja flokkinn þarf til þess að mynda meirihlutastjórn.

Katrín segir aðspurð að ekki hafi verið ákveðið hvaða flokki verður boðið að taka þátt í viðræðunum. Fyrst sé hugmyndin að kanna hvort flokkarnir tveir geti náð saman. Bjarni og Katrín ræddu saman í gær og er ákvörðunin nú framhald á því samtali.

Fram kemur í tilkynningu frá forsetaembættinu að Bjarni og Katrín hafi tjáð Guðna Th. Jóhannessyni, forseta íslands, „að samkomulag hafi náðst um að kannaður verði möguleiki á samstarfi þessara flokka í ríkisstjórn. Fari svo að sátt náist um þá niðurstöðu verður í beinu framhaldi leitað viðræðna við aðra stjórnmálaflokka um aðild að þeirri stjórn. Forseti fylgist náið með þróun þessara viðræðna og væntir þess að komist verði að niðustöðu um myndun nýrrar ríkisstjórnar innan skamms.“

Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson.
Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert