Bíll brann við sama hús í sumar

„Af hverju ekki? Þessi hurð er alltaf opin og því má búast við hverju sem er,“ segir Riad Dubiak, íbúi við Hafnargötu 32 þar sem eldur braust út í nótt, þegar hann er spurður hvort hann telji að kveikt hafi verið í húsinu.

Í sumar brann bíll á bílastæði við húsið og var grunur um íkveikju þá líka en lögregla rannsakar nú hvort eldur hafi verið lagður að þvottavélum á efstu hæð hússins.

Frétt mbl.is: Fjögur börn í brunanum í Reykjanesbæ

Frétt mbl.is: Kona í haldi grunuð um íkveikju

Dubiak þurfti að fara í miklum flýti úr íbúð sinni á fyrstu hæð ásamt konu sinni og þriggja ára dóttur þeirra í nótt þegar eldurinn braust út. Um 30 manns búa í hús­inu og er hluti íbúa fjöl­skyld­ur úr hópi hæl­is­leit­enda sem dvelja í hús­inu á veg­um Reykja­nes­bæj­ar. Hann segir að mikil hræðsla hafi gripið um sig hjá fólki og að börnin hafi verið grátandi. 

Betur fór en á horfðist í nótt og tókst að slökkva eldinn fljótt en mikill reykur fór um allt húsið og voru verslunareigendur á jarðhæð að gera ráðstafanir vegna þess þegar mbl.is bar að garði í hádeginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert