Hollvinir gefa á fimmta tug milljóna

Afhending fæðingarúmsins í dag. Frá vinstri, stjórnarmenn í Hollvinasamtökunum, Jóhannes …
Afhending fæðingarúmsins í dag. Frá vinstri, stjórnarmenn í Hollvinasamtökunum, Jóhannes Bjarnason formaður, Jóhann Sigurðsson og Kristín Sigfúsdóttir, þá Kristín Hilmarsdóttir, eiginkona Jóhannesar, Ingibjörg Jónsdóttir forstöðuljósmóðir og Alexander Smárason, forstöðulæknir á fæðingardeild.

Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) afhentu stofnuninni í dag nýtt fæðingarúm. Samtökin hafa á árinu fjármagnað kaup á rúmlega 20 lækningatækjum, samtals að andvirði á milli 40 og 50 milljóna króna.

Að sögn Jóhannesar Bjarnasonar, formanns Hollvinasamtakanna, hafa samtökin síðustu þrjú ár fjármagnað þriðjung allra tækjakaupa SAk. „Í næstu viku munum við afhenda formlega ný rúm fyrir geðdeildina, sem gjörbreyta allri aðstöðu deildarinnar. Fleiri tæki verða afhent á þessu ári sem fara á skurðdeild og í sjúkraflugið,“ segir Jóhannes. Hann hvetur fólk, eins og við öll tækifæri að eigin sögn, til að gerast hollvinir sjúkrahússins. Auðvelt sé skrá sig í samtökin, á heimasíðu stofnunarinnar, www.sak.is. Árgjaldið er 5.000 krónur.

„Ég vil þakka innilega öllum hollvinum sem og þeim fjölmörgu aðilum sem hafa lagt okkur lið við að bæta tækjakost SAk,“ segir Jóhannes Bjarnason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert