Iceland Airwaves loks „á heimleið“

Fulltrúar Icelandair, Flugfélags Íslands og Iceland Airwaves á Græna hattinum …
Fulltrúar Icelandair, Flugfélags Íslands og Iceland Airwaves á Græna hattinum í morgun. Frá vinstri: Addý Ólafsdóttir, Henný María Frímannsdóttir, Grímur Atlason, Guðmundur Óskarsson og Saga Ómarsdóttir. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves verður haldin á Akureyri, auk Reykjavíkur, á næsta ári, þegar hún fer fram í 19. skipti, 1. til 5. nóvember. Stefnt er því að tónleikar verði á tveimur til þremur stöðum nyrðra, m.a. á Græna hattinum þar sem ákvörðunin var kynnt á fundi með blaðamönnum í morgun. Alls verða á þriðja tug tónlistaratriða fyrir norðan, þar af sex erlend í það minnsta. Að auki er gert ráð fyrir nokkrum atriðum utan dagskrár.

Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Iceland Airwaves, sagði í morgun að í raun væri hægt að halda því fram að hátíðin væri loks á heimleið. „Tónleikar í Sjallanum snemma í október 1999, þar sem léku meðal annars Dead Sea Apple og Toy Machine, urðu til þess að Icelandair hélt tónleika í Flugskýli 4 á Reykjavíkurflugvelli 16. október,“ sagði Grímur í morgun. Það voru fyrstu formlegu Airwaves-tónleikarnir, stóðu í fjórar klukkustundir í samstarfi Flugleiða (sem nú heita Icelandair), Flugfélags Íslands og EMI-útgáfurisans. Hugmyndin var að koma á framfæri hæfileikaríkum og efnilegum íslenskum hljómsveitum, auk þess að kveikja áhuga ungs fólks um allan heim á Íslandi. Óhætt er að segja að það hafi tekist.

Grímur segir að rætt hafi verið í nokkur ár að hátíðin teygði anga sína norður í land og ánægjulegt sé að loks verði af því. 

Ein aðalástæða þess að ákveðið var að hátíðin yrði einnig haldin nyrðra er að senn hefst beint flug á milli Keflavíkur og Akureyrar yfir vetrarmánuðina og erlendum ferðamönnum, sem flykkjast árlega til landsins vegna Airwaves, verður gert kleift að fara beint norður í land kjósi þeir það. Talið er líklegt að einhver hópur sýni því áhuga að upplifa að minnsta kosti hluta hátíðarinnar á Akureyri. Boðið verður upp á ferðapakka fyrir erlenda gesti sem geta varið fyrstu dögum Íslandsheimsóknarinnar á Akureyri og endað í Reykjavík.

Almenn miðasala á hátíðina hefst 1. febrúar og verða þrenns lags miðar í boði: Almennur miði – armband sem gildir á alla viðburði hátíðarinnar, Akureyrarmiði – armband sem gildir á alla viðburði á Akureyri og Akureyri plús viðbót – armband sem gildir á alla viðburði fyrir norðan og í Reykjavík 4. og 5. nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert