Steinþór fær greidd laun í eitt ár

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans.
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans. mbl.is/Ómar

Samkvæmt ráðningarsamningi Steinþórs Pálssonar, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, fær hann greidd laun í tólf mánuði frá því að störfum hans lýkur. Við starfslokin var ekki samið um greiðslur umfram þann rétt sem kveðið er á um í samningnum samkvæmt upplýsingum frá bankanum.

Tilkynnt var í gær að komist hefði verið að samkomulagi á milli Steinþórs og bankaráðs Landsbankans um að hann léti af störfum en hann tók við starfinu 1. júní 2010. Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri fjármála og staðgengill bankastjóra, hefur tekið við stjórn bankans þar til nýr bankastjóri hefur verið ráðinn til starfa að lokinni auglýsingu.

Frétt mbl.is: Steinþór hættur hjá Landsbankanum

Kjör bankastjóra Landsbankans eru ákvörðuð af kjararáði en samkvæmt úrskurði ráðsins í lok síðasta árs voru heildarlaunin 1.949.691 krónur. Kjararáð felldi síðan annan úrskurð í júní í sumar þar sem ákveðin var almenn hækkun þeirra sem heyra undir ráðið um 7,15%. Heildarmánaðarlaun bankastjóra Landsbankans eru samkvæmt því 2.089.094 krónur.

Samkvæmt þessu fær Steinþór greiddar rúmar 25 milljónir króna eftir að hann lætur af störfum sem bankastjóri Landsbankans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert