Þjóðstjórn „algerlega ótímabær“

Fulltrúar Pírata, Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, Smári McCarthy og Birgitta Jónsdóttir, …
Fulltrúar Pírata, Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, Smári McCarthy og Birgitta Jónsdóttir, á fundi með forseta Íslands. mbl.is/Hjörtur

Beinast liggur við að láta aftur reyna á fimm flokka ríkisstjórn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar. Þetta sögðu oddvitar Pírata eftir að þeir höfðu fundað með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, á skrifstofu hans við Sóleyjargötu í Reykjavík í dag. Það væri draumastjórn Pírata.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, sagði flokkinn „alveg óvart“ vera orðinn að einhvers konar brú vegna mögulegs samstarfs flokkanna fimm. „Okkur finnst algerlega ótímabært að ræða um þjóðstjórn á þessum tímapunkti,“ sagði hún og vísaði þar til ummæla Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG, í gær um að hugsanlega þyrfti að íhuga þann möguleika.

Birgitta sagði að ýmislegt hefði verið órætt í viðræðum flokkanna fimm. Meðal annars hvert sækja ætti fjármagn til þeirra verkefna sem fara þyrfti í meðal annars í heilbrigðismáum og ferðaiðnaðinum. Allir þyrftu að gefa eftir og Píratar væru svo lánsamir að hafa þegar gefið eftir tvö stór mál og skoruðu fyrir vikið á aðra að gera slíkt hið sama.

Vísaði hún þar annars vegar til kröfu Pírata um stutt kjörtímabil og hins vegar um að flokkurinn færi ekki í ríkisstjórn þar sem þingmenn væru ráðherrar. Tækist að mynda fimm flokka ríkisstjórn mætti segja að komin væri lítil þjóðstjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert