Maraþonhlaupari í „lélegu formi“

Bryndís á ferðinni í Reykjavíkurmaraþoninu.
Bryndís á ferðinni í Reykjavíkurmaraþoninu. Ljósmynd/Aðsend

Skokkarinn Bryndís Svavarsdóttir kallar ekki allt ömmu sína. Flestir sem hafa gaman af því að hlaupa láta sér nægja eitt, kannski tvö maraþonhlaup á ári. Bryndís er ekki ein af þeim en hún hefur hlaupið 206 maraþonhlaup en fyrsta hlaupið hljóp hún fyrir 21 ári.

„Ég byrjaði að hlaupa 1991, skokkaði með skokkhópnum Bláu könnunni í Hafnarfirði. Ég fór síðan í fyrsta maraþonið 1995 í Stokkhólmi,“ segir Bryndís í samtali við mbl.is. Hún kveðst ekki reyna að fara í ákveðið mörg hlaup á ári „en ég hef mest farið í 20 maraþon á einu ári,“ segir Bryndís sem hefur tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoninu undanfarin 20 ár.

Slegið á létta strengi í Flórída.
Slegið á létta strengi í Flórída. Ljósmynd/Aðsend

Finnst mjög gaman að ferðast

Bryndís er hógvær þegar talið berst að því hvort hún sé þá ekki í mjög góðu formi. „Nei, nei, ég er í afspyrnu lélegu formi núna. Það hægist á mér og ég er ekki lengur á fullu í hverju hlaupi þótt ég sé skráð í hlaupin,“ segir Bryndís sem hljóp síðasta hlaup í Flórída í Bandaríkjunum í lok nóvember.

Hún segist frekar hlaupa til að geta ferðast. „Mér finnst svo gaman að ferðast. Þegar maður fer til Ameríku að hlaupa þá er maður líka að nota ferðina. Þegar loksins kemur að hlaupinu er maður búin að ganga upp að mitti í búðum og á ferðalaginu sjálfu. Þegar maður stendur á startlínunni þá er maður alveg dauðþreyttur. Algjörlega búin á því.“

Hleypur ein

Maraþonhlaupum ársins er lokið en ekki verður langt liðið af næsta ári áður en Bryndís sprettur úr spori á nýjan leik. „Ég verð í Texas á nýársdag. Síðan fer ég í þrjú hlaup á Hawaii í janúar og er skráð í hlaup í Róm í apríl. Ég er róleg núna,“ segir Bryndís sem fagnaði 60 ára afmæli á miðvikudaginn.

Hér áður fyrr fór maðurinn oftast með mér út en eftir að hún fór að fara margar helgarferðir, oft með stuttu millibili, til Ameríku þá nennti hann ekki lengur að fara með. Hann bíður þá heima enda með sæmdarheitið „Bíðari nr 1“. 

„Mér finnst ágætt að vera alein og ráða mér algerlega sjálf. Systur mínar hafa farið með mér í Space Coast Seríuna í Florida, sem er þá Thanksgiving og Black Friday-verslunarferð í leiðinni,“ segir Bryndís. „Þær hafa hlaupið hálft maraþon sem er frábært hjá þeim.“

Skellir í eina sjálfu á hlaupum.
Skellir í eina sjálfu á hlaupum. Ljósmynd/Aðsend

Helgarferð yfir hálfan hnöttinn

„Geðveikasta sem ég hef gert er að fara helgarferð til Hawaii. Leiðin heim var tvö næturflug, tvær nætur í röð, og ég gisti aldrei á leiðinni,“ segir Bryndís og skellihlær. „Það var rosalegt að fara helgarferð yfir hálfan hnöttinn, hlaupa maraþon og fara heim,“ segir Bryndís en hún kveðst vera nokkuð góð þegar hún lýkur við að hlaupa 42,2 kílómetra:

„Ég get alveg farið og verslað í nokkra klukkutíma á eftir, það er betra að hreyfa sig en að stirðna upp.“

Eins og áður sagði hefur Bryndís alls hlaupið 206 maraþonhlaup. Mörg þeirra hafa verið vestanhafs en hún hefur náð tveimur hringjum í Bandaríkjunum; er búin með tvö maraþon í öllum ríkjum landsins. „Ég var fyrst Norðurlandabúa til að ná einum hring og ábyggilega fyrst líka til að fara tvo.

Bryndís bloggar um hlaupin hér.

Bryndís á hlaupum í vesturhluta Reykjavíkur.
Bryndís á hlaupum í vesturhluta Reykjavíkur. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert