Hjólaborgin Kaupmannahöfn

Ljósmynd/Kasper Thye

Met var slegið í nóvembermánuði í Kaupmannahöfn þegar fjöldi hjóla á ferð í miðborginni fór í fyrsta sinn fram úr fjölda bíla frá því að mælingar hófust. Á síðastliðnu ári hefur hjólunum fjölgað um 35.080 og er heildarfjöldinn því kominn í 265.700 til samanburðar við 252.600 bíla.

Borgaryfirvöld í Kaupmannahöfn hafa talið bíla og hjól handvirkt á nokkrum stöðum í miðborginni frá árinu 1970 þegar bílarnir voru meira en þrisvar sinnum fleiri en hjólin eða rúmlega 350.000 bílar á móti um 100.000 hjólum. Fyrstu rafrænu skynjararnir voru síðan settir upp árið 2009 og er nú fylgst með umferð á 20 stöðum.

„Það sem gerði gæfumuninn var sterkur pólitískur leiðtogi, Ritt Bjerregaard [fyrrum yfirborgarstjóri], sem hafði virkilegan áhuga á hjólum,“ sagði Klaus Bondam í samtali við Guardian en Bondam vann áður hjá borginni en er nú í forsvari fyrir Landssamband hjólreiðamanna í Danmörku.

Hluti af ímynd borgarinnar

Þetta endurspeglast í fjárfestingu Kaupmannahafnar í hjólreiðum. Frá árinu 2005 hefur borgin eytt milljarði danskra króna (16 milljarðar kr.) í innviði fyrir hjólreiðar. Þar á meðal er hjóla- og göngubrúin Cykelslangen. Þetta hefur ennfremur þýtt að hjólreiðar fóru úr því að vera aðeins hluti af hversdagslífi hins venjulega Kaupmannahafnarbúa í að vera stór þáttur í ímynd borgarinnar.

Morten Kabell, borgarstjóri umhverfismála og innviða í Kaupmannahöfn, segir hjólaborgina vera markmið sem er í stöðugri þróun. Hann sér fyrir sér að miðborgin á milli Nørreport, Ráðhússins og Kóngsins nýjatorgs verði bíllaus innan áratugar. Takmarkið er ennfremur að 50% allra ferða á Stór-Kaupmannahafnarsvæðinu verði farin á hjóli árið 2025 en þessi tala er nú 41%. Hann býst samt við því að þessi tala lækki eitthvað þegar nýtt og stærra neðanjarðarlestarkerfi verður opnað árið 2019.

„Það er enginn vafi á því að þetta mun draga eitthvað úr hjólaumferð en það mikilvægasta fyrir mér er að hafa umhverfisvænar samgöngur. Svo framarlega sem þær eru ekki háðar jarðefnaeldsneyti, minnka umferðarteppur og loftmengun, finnst mér þetta flott,“ sagði Kabell.

Á síðastliðnu ári hefur hjólaumferð aukist um 15% en bílaumferð hefur dregist saman um 1%. Íbúum Kaupmannahafnar fjölgar smám saman en búist er við að þeim fjölgi úr 600.000 í 715.000 á næstu 15 árum.

Áskorunin sem borgaryfirvöld mæta nú er að byggja innviði til að halda í við fjölgunina samhliða því að stækka neðanjarðarlestakerfið.

Undir stjórn Kabells er verið að kanna hvar brestir liggja í kerfinu. Í síðasta mánuði var íbúum boðið að benda á hvar þyrfti að bæta úr, hvar vantaði hjólastíga eða hvar þeir væru of þröngir eða hreinlega of mikil umferð á þeim. Á innan við tólf dögum deildu fleiri en 10.000 manns skoðunum sínum á korti á netinu. Eitt af því sem þarna kom fram var að ein fjölfarnasta hjólaleið borgarinnar við Nørrebrogade þykir of þröng.

Ekki í genunum

Gögnin verða notuð til að þróa hjólreiðaáætlun fyrir árin 2017-2025 þar sem verður lögð áhersla á að breyta og bæta þar sem þörfin er mest. Hjólreiðaáætlunin verður síðan lögð til grundvallar við gerð fjárhagsáætlunar borgarinnar.

Kabell telur að allar borgir geti gert þetta. „Þetta er ekki í genunum okkar, þetta er ekki í vatninu. Það sem við höfum sýnt heiminum er að ef maður byggir innviðina þá fer fólk að hjóla.“

Markmið Reykjavíkurborgar er að hlutdeild bílaumferðar á götum borgarinnar verði 58% árið 2030, almenningssamgangna 12% og gangandi og hjólandi 30% í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur, stefnu borgarinnar um eflingu almenningssamgangna, hjólreiðaáætlun og loftslagsstefnu, að því er segir á reykjavik.is.

Samkvæmt könnun sem gerð var í haust fara 67% fullorðinna á bíl sem bílstjórar í vinnu eða skóla á morgnana og 7% sem farþegar í bíl, 13% fara gangandi, 7% með strætó og 6% á hjóli. Takmark sem borgin hefur sett sér og er að finna á hjolaborgin.is er að hlutdeild hjólandi og gangandi í öllum ferðum í Reykjavík verði a.m.k. 25% árið 2017 og 26% árið 2020.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert