Nemendur fengu veglegan morgunmat

Veglegur og góður morgunmatur getur skipt máli að sögn Jóns …
Veglegur og góður morgunmatur getur skipt máli að sögn Jóns Péturs. En góðir kenn­ar­ar eru einnig lyk­ill af góðu gengi nemenda. mbl.is/Styrmir Kári

Í síðustu PISA-könnun árið 2012 var Réttarholtsskóli einn af þeim grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu sem kom best út. Ef allir skólar á Íslandi hefðu komið eins vel út og Réttarholtsskóli árið 2012 væri meðaltalið á Íslandi í PISA-könnuninni hærra en í Finnlandi, sem kemur best út af Norðurlöndunum. Jón Pétur Zimsen, skólastjóri Réttarholtsskóla, er vongóður um að niðurstaðan í ár verði svipuð. Í þessari PISA-könnun sem var lögð fyrir árið 2015 og var kynnt í gær liggur ekki fyrir hvaða grunnskólar koma best út.  

Jón Pétur segist vera með ákveðna tilgátu um hvers vegna skólinn hefur komið vel út en tekur fram á að hann hafi ekki sannreynt hana. Hann segir þetta vera samspil metnaðarfullra kennara og nemenda sem eru virkilega duglegir að leggja sig fram.  

Leggja áherslu á að nemendur leggja sig fram

„Við leggjum mikla áherslu á að nemendur leggi sig fram í þessu prófi eins og öllu öðru sem þeir taka sér fyrir hendur í skólanum,” segir Jón Pétur. Í síðustu þrjú skipti sem nemendur skólans hafa tekið PISA-könnunina hafa nemendur fengið veglegan morgunmat. Síðast fengu þau egg og beikon. „Hugarfarið skiptir öllu máli. Við viljum hvetja krakkana áfram og ég held að margir hafi farið jákvæðir inn í prófið,“ segir Jón Pétur.

Fyrir PISA-könnunin fór hann inn bekk til nemenda og ræddi við þá um könnunina og skoðaði með þeim tilteknar prófspurningar. Hann segir þær vera skemmtilegar en líka þrælerfiðar og reyni talsvert á nemendur því mikil pæling er á bak við þær. Prófið skoðar hæfni og hvernig einstaklingurinn beitir þekkingunni til að leysa ákveðin verkefni. „Það er enginn vandi að gefast upp í þessu. Það þarf stundum að lesa fram og til baka, skoða myndir og beita rökhugsun og margt fleira,“ segir Jón Pétur. 

Jón Pétur Zimsen, skólastjóri Réttarholtsskóla.
Jón Pétur Zimsen, skólastjóri Réttarholtsskóla. mbl.is/Kristinn

Góðir kennarar eru einnig lykill af góðu gengi, að sögn Jóns Péturs. Hann bendir á að skólastarfið byggir á mjög góðum tengslum kennarana við nemendur og öflugu samstarfi við foreldra. Í skólanum eru eingöngu nemendur á unglingastigi. „Þetta er stór skóli. Það er mikil fagleg umræða um námsefnið og kennsluhætti á meðal kennara. Hver kennari sér um að kenna grein sem hann er sterkastur í. Þessi sérhæfing kennaranna hefur áhrif,“ segir Jón Pétur spurður um þátt kennara í velgengninni. 

PISA-kannanir gott matstæki

Jón Pétur telur PISA-kannanir vera mjög gott matstæki fyrir skólakerfið sem felst í endurgjöf á starfi. Hann vildi gjarnan sjá nánari greiningu á svörunum eins og til dæmis hvaða dæmi koma vel út og hvaða verkefni nemendur eiga erfiðara með að leysa og svo framvegis. Hann bendir hins vegar á að það megi ekki einblína of mikið á niðurstöðu í PISA í því samhengi nefnir hann vellíðan nemenda, félagsfærni þeirra og fleiri mikilvæga þætti sem PISA mælir ekki.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert