Ræða málin áfram óformlega

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Ófeigur

Viðræður fimm stjórnmálaflokka um myndun mögulegrar ríkisstjórnar eru enn óformlegar. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að hefja formlegar viðræður. Þetta hefur Ríkisútvarpið eftir Birgittu Jónsdóttur, þingmanni Pírata, en flokkur hennar hefur rætt við Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, Viðreisn, Bjarta framtíð og Samfylkinguna undanfarna daga.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Birgittu umboð til stjórnarmyndunar síðasta föstudag. Óformlegar viðræður hófust á mánudaginn og hafa staðið yfir daglega síðan. Þingflokkur VG veitti formanni flokksins, Katrínu Jakobsdóttur, á mánudaginn umboð til þess að hefja formlegar viðræður við hina flokkana en ekki hefur orðið af þeim enn.

Helsta ástæða þess mun vera sú að Viðreisn og Björt framtíð telja ekki tímabært að taka upp formlegar viðræður enn. Fara þurfi fyrst yfir málið óformlega og kanna hvort tilefni sé til þess að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður.

Fyrri viðræður flokkanna fimm undir verkstjórn Katrínar runnu út í sandinn í síðasta mánuði. Sleit Katrín þeim eftir að Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, tjáði henni að hann hefði ekki sannfæringu fyrir viðræðum flokkanna.

Flokkarnir fimm ætla að funda áfram á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert