Hressileg úrkoma í vændum

Búast má við talsverðri rigningu eða slyddu á Ströndum fram á nótt, samkvæmt upplýsingum frá vakthafandi veðurfræðingi á Veðurstofu Íslands.

Greiðfært er nánast um allt sunnan- og vestanvert landið. Á Vestfjörðum eru hálkublettir nokkuð víða. Hálkublettir og jafnvel hálka er allvíða á Norðurlandi og Austurlandi.

Spáin fyrir næsta sólarhring:

Vaxandi norðaustanátt og víða dálítil rigning, 10-18 m/s með morgninum, hvassast á Vestfjörðum og á annesjum norðvestan til. Rigning eða slydda fyrir norðan, en annars rigning með köflum. Heldur hægari í nótt. Norðaustan 10-18 m/s á morgun, hvassast norðvestan til og við suðausturströndina. Víða rigning, en úrkomulítið suðvestan- og vestanlands. Hiti 0 til 8 stig, mildast við suðurströndina.

Á föstudag:
Austan og norðaustan 10-18 m/s. Rigning eða slydda, en yfirleitt þurrt NV- og V-lands. Hiti 0 til 8 stig, mildast syðst.

Á laugardag:
Minnkandi norðaustanátt, 5-10 m/s síðdegis. Rigning eða slydda A-til á landinu, annars skýjað með köflum og úrkomulítið. Hiti 0 til 7 stig.

Á sunnudag:
Gengur í suðaustan 10-15 með rigningu sunnan og vestan til á landinu. Hægari og þurrt um landið norðaustanvert. Hiti breytist lítið.

Á mánudag:
Sunnanátt og skúrir eða él, en léttskýjað á N- og A-landi. Kólnandi í bili.

Á þriðjudag:
Suðlæg átt, rigning eða slydda um landið sunnanvert, en þurrt að mestu norðan til. Hiti 0 til 6 stig.

Á miðvikudag:
Útlit fyrir suðlæga átt. Stöku él og kólnandi veður.

Hugleiðingar vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands:

Hvöss norðaustanátt norðvestan til á landinu í dag og má búast við hvössum vindstrengjum við fjöll á þeim slóðum. Mun hægari austanátt sunnan- og austanlands. Víða rigning, en rigning eða slydda norðan til á landinu þegar líður á daginn. Hægari vindur í nótt og úrkomuminna, en bætir aftur í vind á morgun, norðaustan 10-18 m/s upp úr hádegi, hvassast norðvestan til og einnig við suðausturströndina. Nær samfelld rigning austantil á landinu, en lengst af þurrt vestanlands. Hiti 0 til 8 stig, mildast við suðurströndina. Lægir smám saman á laugardag og dregur úr úrkomu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert