Píratar og Samfylkingin samþykkja

Forystumenn stjórnmálaflokkanna fimm á fundi fyrr í kvöld.
Forystumenn stjórnmálaflokkanna fimm á fundi fyrr í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Þingflokkur Pírata samþykkti einróma á fundi sínum í Alþingishúsinu í kvöld að farið yrði í formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, Viðreisn, Bjarta framtíð og Samfylkinguna.

Þetta staðfestir Kristján Gunnarsson, fjölmiðlafulltrúi Pírata, í samtali við mbl.is. Samfylkingin hefur að sama skapi samþykkt formlegar viðræður. Meðal þeirra mála sem rætt hafi verið um hafi verið ríkisfjármálin, sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál.

Þingflokksfundur VG stendur enn og sama er að segja um Bjarta framtíð og Viðreisn sem funda saman á nefndasviði Alþingis. Kristján segir að stefnt sé að því að forystumenn flokkanna fundi klukkan 12 á morgun. Gert sé ráð fyrir sameiginlegri yfirlýsingu að þeim fundi loknum og að þingflokkarnir fundi síðan aftur í kjölfarið. 

Flokkarnir fimm hafa fundað óformlega undanfarna viku í kjölfar þess að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, veitti Birgittu Jónsdóttur, þingmanni Pírata, umboð til stjórnarmyndunar á föstudaginn fyrir viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert