Bifreið rann á flugvél Wow air

Flugvél frá Wow air.
Flugvél frá Wow air. Ljósmynd/Wow air

Bifreið sem sér um að flytja farangur í flugvélar rann á flugvél Wow air sem átti að fara til Kaupmannahafnar snemma í morgun með þeim afleiðingum að vélin skemmdist lítillega.

Að sögn Svanhvítar Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa Wow air, urðu mannleg mistök þess valdandi að bifreiðin rann í hálku á vélina. Engin meiðsli urðu á fólki.

Flugferðinni til Kaupmannahafnar var seinkað til klukkan 15.40  í dag á meðan verið er að bíða eftir annarri flugvél frá Evrópu sem mun flytja farþegana á áfangastað.

Þetta veldur því að flugi Wow air frá Kaupmannahöfn til Íslands sem var áætlað klukkan 11.40 í morgun hefur verið seinkað til klukkan 20.40 í kvöld.

Um 190 farþegar eru bókaðir í hvort flug. 

Aðspurð segist Svanhvít ekki vita til þess að flugafgreiðslubifreið hafi áður runnið á flugvél eins og gerðist í morgun. „Þetta var bara óhapp. Það eru mannleg mistök sem þarna gerast. Það er búið að upplýsa farþega mjög vel, bæði með SMS og tölvupóstum,“ segir hún.

Verið er að meta stöðuna á flugvélinni sem lenti í óhappinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert