Með heila breska herdeild í kaffi á aðfangadagskvöld

Herdís Egilsdóttir.
Herdís Egilsdóttir. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Ég vissi nú ekkert af því fyrr en þeir bara þrömmuðu inn pallinn og forstofan fylltist af hermannaklossum, en pabbi bauð þeim öllum heim á aðfangadagskvöld, 19 talsins. Það var ekki vaninn að nokkur kæmi til okkar þá, svo að þetta var afar óvenjulegt,“ segir kennarinn og rithöfundurinn Herdís Egilsdóttir, sem er viðtalsefni Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins á aðfangadag.

Í viðtalinu talar Herdís um ævi og störf og meðal annars óvenjuleg æskujól á Húsavík í seinna stríði þegar hún var 10 ára gömul. Breskir hermenn bjuggu í bragga í fjörunni rétt fyrir neðan húsið þar sem hún átti heima með foreldrum sínum, en hún er yngst þriggja systkina.

Pínulítið jólatré

„Uppi á stól hjá okkur var pínulítið jólatré en það var alveg sama stemningin því þótt foreldrar mínir væru ekki efnafólk var mamma ofsalega dugleg að búa til mikið og fallegt úr litlu.“ 

Herdís og fjölskylda sáu alltaf til hermannanna af heimili sínu og þeir voru vingjarnlegir og notalegir. Föður Herdísar datt það í hug að það yrði hörmulegt fyrir þessa menn að vera í bragganum á aðfangadagskvöld.

„Mamma tíndi út ósköpin öll af bollapörum, kökum og laufabrauði og hermennirnir tróðu sér einhvern veginn inn í litlu stofuna. Þarna sátu þeir, úðuðu í sig góðgæti og horfðu á þetta litla jólatré. Það kunni enginn ensku á mínu heimili en það skipti engu máli, þeir komu allir með sinn súkkulaðipakkann hver handa okkur og það var leikaramynd inni í pakkanum. Kvöldið fór í það að þeir kenndu mér að segja nöfnin á leikurunum.

Þegar þeir fóru svo, glaðir og sætir, gaf pabbi þeim öllum sína laufabrauðskökuna, með ýmiss konar útskurði. Þar á meðal var ein kaka með nafninu mínu. Seinna frétti ég svo frá strákum sem komu inn í braggann að inni í honum hefði kakan með nafninu Herdís hangið lengi á nagla, alla vega langt fram á sumar. Þeir höfðu þá ekki tímt að borða hana,“ segir Herdís, eflaust einn fárra Íslendinga sem hafa fengið heila breska herdeild úr seinna stríði í kaffi á aðfangadagskvöld.

Herdís hefur alla tíð verið ein helsta talskona þess að dýrðleiki barna sé mikill og segir þann kafla lífs síns, 45 ár sem hún leiddi lítil börn í skóla Ísaks Jónssonar, hafa verið hvað stórkostlegastan.

Hvað er það við börn sem gefur þér svona mikið?

„Það er það að þau eru það eina í heiminum sem er fullkomið þegar þau koma í heiminn. Þau eru miklu klárari en við gerum okkur grein fyrir og sjá strax hver við í raun erum. Ég er sjálf feimin við börn í vöggu sem eru farin að mynda augnsamband við mann, þá næstum því roðna ég. Mér finnst ég þá svo einföld og berskjölduð. Þessi vitsmunavera sem er ekkert farin að segja, hún skynjar svo mikið.

En svo fer heimurinn náttúrulega að setja sína marbletti á þessar elskur, oftast fyrir hugsunar- eða skilningsleysi. Samt má ekki ofvernda þau því þau myndu auðvitað ekki þroskast eins vel ef þau yrðu aldrei fyrir neinum árekstrum. En þetta er óskapleg sigling fyrir börn að fara í gegnum allt sem þau heyra og sjá og trúa samt á það góða og láta það ekki eyðileggja sjálfsmynd sína eða draga úr sér kjarkinn.“

Börn eru ekki óvitar

Herdís vill alls ekki láta kalla börn óvita. „Þau eru ekki óvitar, því þau eru full af áhrifum frá umhverfi sínu, strax í móðurkviði. Þótt þau séu ekki farin að tjá sig skalt þú passa þig að tala ekkert bull við þessi börn. Og þegar þau fara að spyrja mikilvægra spurninga má ekki gefa ábyrgðarlaus svör, segja einhverja vitleysu sem þarf svo að leiðrétta seinna. Þá missa þau trúna á manni undir eins.“

Herdís giftist að verða sjötug fyrrverandi skólastjóra Skóla Ísaks Jónssonar, Antoni Sigurðssyni eftir næstum hálfrar aldar vináttu. Í viðtalinu segir hún að þar sem þau Anton þekktu betur en flestir aðrir kosti og galla hvort annars, hafi þetta því í raun verið eins og nýr kafli í vináttu þeirra en þau hafa nú verið gift í 13 ár.

Hvernig hljómar jólakveðja þín til landsmanna – sem lesa þetta viðtal í Morgunblaðinu?

„Nú ætla ég að vanda mig. Metið börnin ykkar að verðleikum. Þau eru miklu dýrmætari og meiri persónur en ykkur grunar. Sýnið þeim væntumþykju, hvernig sem þau eru, þau þurfa á henni að halda, öll. Börn og unglingar eru stundum ódæl en það er af því að þau eru oftast að kalla á hjálp. Faðmið þau og verið þeim góð.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert