Hundruð jarða í eigu aðila með erlent lögheimili

Umræður hafa sprottið um eignarhald erlendra aðila á íslenskum jörðum.
Umræður hafa sprottið um eignarhald erlendra aðila á íslenskum jörðum. Kristján Kristjánsson

Samtals eru 384 jarðir í eigu aðila með lögheimilið skráð erlendis. Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur þingkonu um eignarhald á jörðum.

Þar af eru 62 jarðir að öllu leyti í eigu aðila með lögheimili skráð erlendis en 322 jarðir að hluta í eigu aðila með lögheimili skráð erlendis. Hafa ber í huga að eigandi eignar sem hefur lögheimili erlendis getur haft íslenskt ríkisfang og eigandi eignar með lögheimili á Íslandi getur haft erlent ríkisfang.

Jóhanna spurði hversu margir eigendurnir væru að þeirri jörð sem hefði flesta eigendur og kemur í ljós að þeir eru 80 samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands. 

Einnig var spurt hve margar jarðir hefðu tíu eigendur eða fleiri og hve margar þeirra væru ekki nýttar. Þær eru 250 talsins og þar af eru 140 jarðir með byggingum og 110 óbyggðar. Ekki eru tiltækar upplýsingar um það hvort jörð er nýtt heldur einungis hvort fasteign er á jörðinni eða ekki. Þá getur dánarbú verið eigandi jarðar og telst þá sem einn eigandi óháð því hvað erfingjar eru margir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert