Fárveikum manni sagt að hringja

Sjúkrahúsið Ísafirði.
Sjúkrahúsið Ísafirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Vegfarandi á Hlíðarvegi á Ísafirði kom á laugardaginn að manni sem fengið hafði aðsvif og lognast út af. Bankaði hinn gangandi vegfarandi strax upp á í næsta húsi og bað húsráðendur að hringja á eftir hjálp. Maðurinn var þá kominn til fullrar meðvitundar og gat gert grein fyrir því að hann væri á leið á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða til að leita hjálpar vegna lungnabólgu sem þjakaði hann. Greint er frá þessu á vef Bæjarins besta.

Húsráðendur brugðu á það ráð að annar skyldi aka honum beint á sjúkrahúsið sem er staðsett steinsnar frá húsinu, á meðan hinn hringdi á lækni.

Ekki svaraði strax í 1700, svo húsráðandi fletti upp númeri undir formerkjum læknavaktarinnar og fær þá að það sé 1770. Eftir að hafa valið sig áfram til að fá loks aðstoð, kom í ljós að hann var númer þrjú í röðinni. Ákvað hann þá að hringja í 112, en segir að talsvert sé nú síðan að mennirnir hafi komið á sjúkrahúsið og því eflaust búnir að fá aðstoð.

„Móttökur á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða voru með þeim hætti að sjúklingnum og þeim sem aðstoðaði hann var bent á að hringja í vaktsímann 1700 til að fá aðstoð. Íbúinn sem heima sat við símann hringdi þá aftur í 112, þar sem boðist var til að hringja eftir sjúkrabíl fyrir manninn sem þegar var kominn á sjúkrahúsið, til þess að kalla mætti til lækni eftir þeim leiðum.

Í nóvember kom upp tilvik af svipuðum toga, slösuðum manni sem kom sér sjálfur á sjúkrahúsið var gert að dúsa í anddyrinu og hringja sjálfur í hjúkrunarfræðing í Reykjavík sem gaf honum svo samband við lækni á Ísafirði,“ segir í frétt BB en hana má lesa í heild hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert