Kannski mistök að geyma skýrsluna

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Golli

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra kveðst ekki hafa áhyggjur af því að skýrslan um eign­ir Íslend­inga á af­l­ands­svæðum verði honum til trafala á hveitibrauðsdögum nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Rætt var við Bjarna í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Nei ég sé ekki hvers vegna það ætti að vera. Ég skil að fólk hafi skoðanir á því hvort skýrslan hefði átt að koma fyrr eða ekki. Ég hef einfaldlega sagt að ég hafði hugsað þessa skýrslu fyrir þingið og við vorum komin að þinglokum þegar ég var tilbúinn til að leggja hana inn í þing,“ sagði Bjarni en áður hefur komið fram að hann fékk kynningu á efni skýrslunnar 5. október. Hún var síðan gefin út í janúar.

„Einhver gæti sagt að það hafi verið mistök hjá mér að leggja hana ekki inn í þing, jafnvel þótt það væru einn eða tveir sólarhringar eftir af þinginu og augljóst að það væri ekki hægt að setja hana í almennilega málsmeðferð þar. Það kann að vera að ég hafi gert þau mistök og kannski hefði ég átt að gera það,“ bætti Bjarni við en hann kveðst ekki hafa verið að reyna að bæta sína stöðu fyrir kosningarnar sem fóru fram 29. október:

„Hvaða efnisatriði í þessari skýrslu voru mér tilefni til að halda frá umræðunni? Ef eitthvað er voru í skýrslunni upplýsingar um að það sem vantaði upp á skattgreiðslur til hins opinbera væri mun umfangsminna en væri verið að nota í umræðunni. Svo verð ég líka að segja að þessi skýrsla sýnir þann mikla vanda sem það er að slá einhverri áætlun á umfang þessara mála,“ sagði Bjarni og bætti við að skýrslan kallaði á frekari athuganir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert