Ökumenn í vímu og fíkniefnasalar

AFP

Töluvert var um að ökumenn væru ölvaðir eða undir áhrifum fíkniefna á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Fíkniefnasalar voru einnig á ferðinni.

Upp úr níu í gærkvöldi hafði lögreglan afskipti af tveimur mönnum á bifreiðastæði í Breiðholti vegna viðskipta með fíkniefni og klukkan 22:30 voru höfð afskipti af manni í Hafnarfirði sem er grunaður um sölu á fíkniefnum.

Lögreglan stöðvaði bifreið við Gvendargeisla um áttaleytið í gærkvöldi en ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Við umferðareftirlit á Fríkirkjuvegi voru tveir ökumenn sem reyndust vera undir áhrifum áfengis  teknir á tíu mínútum skömmu eftir miðnætti. Hálftíma síðar var tilkynnt um umferðaróhapp á Skothúsvegi. Sá sem olli árekstrinum reyndist undir áhrifum áfengis og eftir að hafa tekið úr honum blóðsýni kom lögreglan honum fyrir í fangaklefa. 

Á þriðja tímanum í nótt var bifreið stöðvuð við Fákafen en ökumaðurinn var undir áhrifum fíkniefna og var með fíkniefni á sér.  

Tveir ölvaðir ökumenn voru stöðvaðir í Hafnafirði í nótt og hefur annar þeirra aldrei öðlast ökuréttindi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert