„Hann er augun mín“

Lilja Sveinsdóttir og Oliver leiðsöguhundurinn hennar.
Lilja Sveinsdóttir og Oliver leiðsöguhundurinn hennar. Eggert Jóhannesson

„Hann er augun mín,“ segir Lilja Sveinsdóttir um leiðsöguhundinn Oliver. „Ég þarf að vita hvert ég er að fara og hvaðan ég er að koma og þekkja leiðina en Oliver leiðsegir mér þannig að ég fari rétta leið. Hann passar að ég fari eftir göngustíg og stoppi á götuhornum en ég þarf svo að segja honum hvort ég vilji fara til vinstri eða hægri eða beint yfir götuna.“

Leiðsöguhundar láta notendur sína einnig vita ef ný hindrun er á veginum, til dæmis skurður. „Þá stoppar hann og lætur mig vita, hann labbar ekkert áfram. Þá þarf ég að þreifa með staf eða einhverju til að finna út af hverju hann stoppar. Síðan þarf ég að segja honum að finna aðra leið.“

Erfitt að læra að treysta

Oliver er annar leiðsöguhundur Lilju en hún fékk fyrri hundinn, hana Ansitu, árið 2008. Ansita starfaði fyrir Lilju í nokkur ár en hún fór á eftirlaun árið 2015.

„Þegar ég fékk fyrsta leiðsöguhundinn minn [var erfitt] að þurfa að treysta hundi fyrir lífi mínu. Það tók mig heilt ár að fatta að ég væri farin að treysta honum. Að kveikja á því var yndislegt, það er ekki hægt að segja annað. Það er bara yndislegt að fatta allt í einu að maður getur treyst hundi fyrir lífi sínu og komið sér áfram.“

Lilja Sveinsdóttir og Oliver leiðsöguhundurinn hennar.
Lilja Sveinsdóttir og Oliver leiðsöguhundurinn hennar. Eggert Jóhannesson

Oliver fer með Lilju í strætó, á heilsugæsluna, inn í búðir og apótek og á spítalann. „Ég hef eingöngu farið með hundinn á spítala ef ég er sjálf að fara í einhverjar rannsóknir, ekki ef ég fer í heimsóknir. Þá hef ég reynt að vera bara með einhverjum og skilið hann eftir heima.“

Fyrir blinda og sjónskerta geta mikil lífsgæði verið fólgin í því að notast við leiðsöguhund. „Þú ert miklu frjálsari að geta labbað rösklega með hundinn án þess að þurfa alltaf að vera með einhverja fjölskyldumeðlimi hangandi í þér.“

Hundurinn getur einnig aukið eingöngu lífsgæði annarra. „Það er svolítið gaman að leiðsöguhundurinn er líka búinn að hafa þannig áhrif að heimilisfólkið er að fara með mér út í gönguferðir, þannig að það eru lífsgæði fyrir hitt heimilisfólkið.“

Hentar ekki öllum

Þó hentar það ekki öllum að hafa leiðsöguhund en notendur þurfa að þekkja umhverfi sitt og aðstæður ágætlega. „Ef fólk er áttavilt þá gengur það ekki því hundurinn treystir bara á að eigandinn labbi þær leiðir sem að hann á að fara. Við getum ekki labbað nýjar [og óþekktar] leiðir heldur þurfum að hafa ákveðnar, fastar rútínur, það byggist á því.“

Áður en Lilja fékk Ansitu fór hún því til Noregs ásamt öðrum umsækjendum um leiðsöguhunda.

Hér eru Lilja og Oliver með Drífu Gestsdóttur leiðsöguhundaþjálfara, stuttu …
Hér eru Lilja og Oliver með Drífu Gestsdóttur leiðsöguhundaþjálfara, stuttu áður en Lilja fékk Oliver. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

„Við vorum sex sem fórum til Noregs. Þar fórum við í gegnum leiðsöguhundaskólann og þeir tóku síðan ákvörðun um hverjir fengju leiðsöguhund. Þeir tóku svo hunda sem myndu henta okkar göngulagi, það þarf að samhæfa okkur og hundinn.“ 

Fimm leiðsöguhundar eru starfandi á Íslandi í dag en þjálfun þeirra tekur um 6-8 mánuði. Þegar hundurinn er fullþjálfaður hefst samþjálfun notenda og leiðsöguhunds sem tekur um það bil fjórar vikur.

Auk Olivers eru starfandi leiðsöguhundar á Íslandi þeir Sebastian, Skuggi, Bono og Sören. Oliver og Sören voru þjálfaðir í Svíþjóð en hinir á Íslandi. Drífa Gestsdóttir þjálfaði Sebastian og Bono og Auður Björnsdóttir þjálfaði Skugga.

Hundur í vinnu

Lilja segir mikilvægt að hafa í huga að þegar leiðsöguhundur er í vinnubeislinu er hann í vinnunni og þá má hvorki klappa honum né trufla á annan hátt.

„Það þarf alltaf að minna á að leiðsöguhundar eru náttúrulega bara í vinnu. Eigandinn má auðvitað klappa þeim og tala við þá því það þurfa alltaf að vera samskipti þar á milli en [fyrir aðra] er stranglega bannað að klappa þeim og það má ekki einu sinni tala við þá.“

Aðstæður breytast þó þegar vinnubeislið er tekið af en þá er leiðsöguhundurinn bara eins og hver annar hundur. „Það er alveg dýrlegt að sjá muninn á þeim þegar þeir eru að vinna eða ekki að vinna.“

Oliver prýðir dagatal Blindrafélagsins fyrir árið 2017.
Oliver prýðir dagatal Blindrafélagsins fyrir árið 2017. Mynd/Harpa Hrund

Oliver fyrirsæta á nýju dagatali

Blindrafélagið gefur út dagatal fyrir árið 2017 með myndum eftir ljósmyndarann Hörpu Hrund af leiðsöguhundunum Oliver og Sebastian. Tilgangurinn með útgáfunni er að fjármagna kaup og þjálfun leiðsöguhunda fyrir blinda einstaklinga. Hægt er að kaupa dagatölin í vefverslun Blindrafélagsins og í verslunum A4.

Þegar Oliver er í beislinu er hann í vinnunni. Þá …
Þegar Oliver er í beislinu er hann í vinnunni. Þá má hvorki klappa honum né tala við hann. Mynd/Harpa Hrund
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert