Stormviðvörun í umhleypingum

Spáð er suðvestanhvassviðri eða stormi með éljagangi og kólnandi veðri fram á nótt, hvassast norðvestan til, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.

Hálka er á Hellisheiði og hálka eða snjóþekja mjög víða á Suðurlandi.  Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir en á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja en þæfingsfærð á Steingrímsfjarðarheiði. Stórhríð er á Mikladal og Hálfdáni.

Hálkublettir eru víða á Norðurlandi vestra en á Norðausturlandi og Austurlandi eru flestir vegir greiðfærir. Eins er að mestu greiðfært með Suðausturströndinni.

Í dag gengur á með allhvassri eða hvassri suðvestanátt og éljum, jafnvel stormi norðvestan til, en léttir til fyrir austan. Hiti verður yfirleitt kringum frostmark, e.t.v. nokkuð hlýrra við austurströndina.

Á vegum og gangstéttum er hált og því um að gera að fara varlega, segir veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Á morgun lægir víða og léttir til og kólnar, en sunnan úr hafi nálgast kröpp og dýpkandi lægð. Annað kvöld er lægðin skammt suður af landinu og hvessir þá af norðaustri með slyddu eða rigningu suðaustanlands og hlýnar þar. Í öðrum landshlutum verður hægari vindur, dálítil snjókoma eða él og svalt. Næstu daga er síðan búist við umhleypingum, hvössum vindum og úrkomu í öllum landshlutum.

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Suðvestanátt, 10-18 m/s, en 15-23 m/s um landið norðvestanvert er kemur fram á daginn. Él, einkum V-til, en léttir til fyrir austan. Heldur hægari vindur með kvöldinu. Hiti kringum frostmark. Lægir og léttir víða til á morgun, en gengur í norðaustan 13-20 með slyddu eða rigningu SA-til á morgun og hlýnar þar, en 8-13 og dálítil snjókoma eða él í öðrum landshlutum.

Á þriðjudag:
Suðvestan 8-15 m/s og él í fyrstu, en lægir síðan talsvert og rofar til. Gengur í hvassa austan- og síðar sunnanátt með slyddu eða rigningu SA-til um kvöldið og hlýnar, en annars norðaustankaldi, snjókoma og vægt frost.

Á miðvikudag:
Allhvöss suðvestanátt með éljum og kólnandi veðri, en bjartviðri A-til. Lægir og rofar til um kvöldið.

Á fimmtudag:
Vaxandi austlæg átt og fer að snjóa S-til og hlýnar í veðri, en hægviðri og bjart fyrir norðan og talsvert frost.

Á föstudag og laugardag:
Líkur á suðlægum áttum með rigningu eða slyddu, en þurrviðri NA-til. Hiti kringum frostmark.

Á sunnudag:
Snýst líklega í norðanátt með éljum fyrir norðan, en léttir til syðra og kólnar í veðri.

Veðrið á mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert