Upplýsingamiðstöð opnar í Ráðhúsi

Frá opnun upplýsingamiðstöðvarinnar í morgun í Ráðhúsinu.
Frá opnun upplýsingamiðstöðvarinnar í morgun í Ráðhúsinu. ljósmynd/Reykjavíkurborg

Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík var opnuð í Ráðhúsi Reykjavíkur klukkan átta í morgun en miðstöðin hefur verið starfrækt í Aðalstræti 2 frá árinu 2002. Miðstöðin er á jarðhæð Ráðhússins. Að jafnaði starfa níu manns hverju sinni í miðstöðinni og er hún opin alla daga ársins frá kl. 8 til 20 nema á jóladag. Opnunartími Ráðhússins mun því lengjast sem því nemur.

Reykjavíkurborg og Höfuðborgarstofa reka Upplýsingamiðstöð ferðamanna með styrk frá Ferðamálastofu og nú í samstarfi við fyrirtækið Guide to Iceland. Á síðasta ári fengu 475.000 ferðamenn aðstoð og þjónustu hjá Upplýsingamiðstöðinni í Aðalstræti sem var 28% fjölgun frá árinu áður og hafa þeir aldrei verið fleiri, segir í tilkynningu um opnunina. 

Miðstöðin hefur átt í árangursríku samstarfi við Safe Travel sem er rekið af Landsbjörg. Í Upplýsingamiðstöð ferðamanna er tryggt að nýjustu upplýsingar um mikilvæga öryggisþætti séu aðgengilegar ferðamönnum, segir enn fremur í tilkynningu. 

„Það er virkilega ánægjulegt að opna Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Ráðhúsi Reykjavíkur sem er eitt sterkasta kennileiti í borginni og einn af þeim stöðum sem ferðamenn heimsækja meðan á dvöl þeirra stendur. Þá er stórt Íslandskort í Tjarnarsalnum sem nýtur mikilla vinsælda meðal ferðamanna. Þessi fallega bygging er í hjarta miðborgarinnar og mun ný staðsetning upplýsingamiðstöðvarinnar efla svæðið hér í kring enn frekar. Það eru spennandi tímar fram undan í ferðaþjónustu sem verður gaman að takast á við með fyrirtækinu Guide to Iceland,“ er haft eftir Áshildi Bragadóttur, forstöðukonu Höfuðborgarstofu, um opnunina í tilkynningu.  

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert