Beitti valdi við að klæða drenginn

Héraðsdómur Reykjavíkur er til húsa við Austurstræti 19.
Héraðsdómur Reykjavíkur er til húsa við Austurstræti 19. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Maður var í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa beitt þáverandi stjúpson sinn valdi til þess að klæða hann í föt árið 2015. Var honum jafnframt gert að greiða drengnum hálfa milljón króna í miskabætur. 

Í málinu liggur frammi frumskýrsla lögreglu og skýrsla rannsóknarlögreglumanns. Í fyrri skýrslunni kemur fram að lögreglan hafi verið kvödd til vegna heimilisófriðar. Þegar þangað kom var heimilisfólkið í uppnámi og allir hlutaðeigandi miður sín og í uppnámi.

Tildrög þess sem gerðist hafi mátt rekja til þess að drengurinn vildi ekki hlýða og búa sig í skólann. Stjúpfaðir hans hafi misst stjórn á sér, beitt drenginn valdi til þess að klæða hann í föt og haldið fast í framhandlegg hans, haldið honum föstum í rúminu og tekið fyrir munn hans.

Ekki hafi verið að sjá neina áverka á andliti eða höndum drengsins en hann hafi fundið til í vinstri rifbeinum og því verið farið með hann á slysadeild. Þá voru engin greinileg merki um átök í herbergi hans.

Fulltrúi barnaverndarnefndar ræddi á vettvangi við drenginn, sem greindi frá því að stjúpfaðir hans hefði ráðist á hann og haldið honum. Hefði honum greinilega verið brugðið og kennt sjálfum sér um hvernig fór.

Með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu var manninum gert að sæta nálgunarbanni og brottvísun af heimili fjölskyldunnar í fjórar vikur og samþykkti maðurinn þá ákvörðun.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að í öllum meginatriðum ber drengnum, móður hans og fyrrverandi stjúpföður saman um aðdraganda þess sem gerðist á sameiginlegu heimili þeirra umrætt sinn. 

Sú valdbeiting felur í sér refsinæman verknað, að sögn dómara. Maðurinn beitti meðvitað valdi í þeim tilgangi að fá drenginn til þess að hlýða. Sú valdbeiting gekk langt og fór svo að hann missti stjórn á sér með fyrrgreindum afleiðingum. Ljóst sé af framburði mannsins að hann gerði sér grein fyrir því hvers eðlis verknaður hans var. Eiga aðfarir sem þessar ekkert skylt við uppeldisaðferðir eins og verjandi mannsins lét að liggja í málflutningi sínum og vísaði til dóms Hæstaréttar í máli nr. 506/2008, segir í niðurstöðu héraðsdóms.

 Við ákvörðun refsingar horfði dómari til þess að maðurinn hefur ekki áður sætt refsingum. Hann iðraðist verknaðarins og samþykkti nálgunarbann og brottvísun af heimili. Þá leitaði hann sér áframhaldandi aðstoðar til þess að takast á við skapgerðarbresti sína og liggja frammi vottorð því til staðfestingar. 

 Á móti komi að um alvarlegt brot var að ræða gegn stjúpbarni hans en náin tengsl þeirra eru til þess fallin að auka á grófleika verknaðarins. Brást maðurinn gróflega uppeldisskyldum sínum gagnvart drengnum með athæfi sínu. 

Dómari tekur fram að málið hafi á óútskýrðan hátt dregist á rannsóknarstigi. Brotið hafi verið framið árið 2015 og rannsókn lauk það sama ár. Ákæran var hins vegar ekki gefin út fyrr í október 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert