Ofurölvi og ósjálfbjarga

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Lögreglan var kölluð að bar í miðborginni á sjötta tímanum í morgun vegna ofurölvi og ósjálfbjarga karlmanns fyrir utan barinn. Lögreglan fór á vettvangi og ræddi við viðkomandi sem var orðinn rólfær og var hann aðstoðaður við að komast í leigubifreið heim til sín.

Um svipað leyti óskaði næturvörður á gistiheimili í miðborginni eftir aðstoð lögreglunnar vegna gests sem hafði veist að honum. Lögreglan fór á vettvang og kom í ljós að gesturinn, sem var karlmaður, hafði veist að næturverðinum eftir að hann meinaði gestinum að taka konu með sér inn í herbergið en samkvæmt reglum er ekki heimild fyrir því að fá slíkar næturheimsóknir. Varð það úr að parið yfirgaf gistiheimilið saman undir morgun.

Lögreglan þurfti í tvígang í morgun að biðja gesti í samkvæmum í heimahúsi að draga aðeins úr hávaðanum. Um sexleytið í Vesturbænum, póstnúmeri 107, og á níunda tímanum í Kópavoginum, póstnúmeri 200. Að sögn lögreglu var þar hópur gesta og var nokkrum frekar heitt í hamsi. Var þeim vísað út úr íbúðinni þar sem talsvert ónæði var af þeim.

Um sexleytið óskaði leigubifreiðastjóri sem staddur var í hverfi 110 eftir aðstoð þar sem hann væri í vandræðum með farþega. Þegar lögreglan kom á vettvang kom í ljós að farþeginn hafði hlaupið í burtu frá ógreiddum reikningi en hann hafði skilið eftir farsímann sinn þannig að lögreglan hafði fljótlega uppi á viðkomandi. Var málið afgreitt í framhaldi af því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert