Vaxandi vinsældir forsetans

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Mikill meirihluti landsmanna er ánægður með störf Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar MMR. Hefur ánægjan með störf forseta náð nýjum hæðum og aldrei mælst jafnmikil síðan fyrirtækið hóf slíkar mælingar 2011.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá MMR að 81,4% séu ánægð með störf Guðna en einungis 3,8% sögðust óánægð. Fyrsta könnun fyrirtækisins eftir að Guðni tók við embætti í ágúst sýndi ánægju með störf hans 68,6%.

Ánægja með störf forsetans er nokkuð mismunandi eftir stuðningi við stjórnmálaflokka en stuðningsmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins reyndust almennt séð ekki jafn ánægðir með störf hans en stuðningsmenn annarra flokka segir í tilkynningunni.

Þannig sögðust 66% stuðningsmanna Framsóknarflokksins vera ánægð með störf Guðna en 70% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins. Ánægðastir voru hins vegar stuðningsmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs eða 95%.

Könnunin var framkvæmd dagana 3. til 10. janúar 2016 og var heildarfjöldi svarenda 954 einstaklingar, 18 ára og eldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert