Guðni sló í gegn í Kaupmannahafnarháskóla

Guðni Th. Jóhannesson heldur ræði í Kaupmannahafnarháskóla í dag.
Guðni Th. Jóhannesson heldur ræði í Kaupmannahafnarháskóla í dag. Golli/Kjartan Þorbjörnsson

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands sló í gegn í Kaupmannahafnarháskóla þar sem honum var boðið að flytja stutta ræðu áður en pallborðsumræður um þjóðernishyggju og og hnattvæðingu fóru fram.

Guðni ræddi stuttlega um þjóðernishyggju og popúlisma í sögulegu samhengi með spaugilegum innskotum inn á milli.

„Þetta eru ummæli eftir persónu sem var sagnfræðiprófessor fyrir minna en ári síðan en er núna þjóðhöfðingi,“ sagði Guðni og vísaði þar í sjálfan sig og sín eigin orð um að heimurinn í dag væri sá sami, að við önduðum að okkur sama lofti. Það væru hins vegar viðhorfin sem breyttust. Guðni rifjaði í þessu sambandi upp áætlaðan fund Sögufélagsins um að halda umræðufund með yfirskriftinni „Endalok þjóðernishyggju.“

„Á degi fundar fengu skipuleggjendur hans aftur á móti tölvupóst: Kæru félagar. Það þarf því miður að fresta fundinum um endalok þjóðernishyggju. Það er mikilvægur leikur í kvöld, strákarnir okkar eru að spila handboltaleik og það á enginn eftir að mæta. Endalok þjóðernishyggju, einmitt það,” sagði Guðni og uppskar mikinn hlátur viðstaddra. Hann lagði þó áherslu á að stuðningur við landslið í íþróttum væri holl leið til þess að sýna ættjarðarást.

Frá pallborðsumræðunum í Kaupmannahafnarháskóla í dag.
Frá pallborðsumræðunum í Kaupmannahafnarháskóla í dag. Golli/Kjartan Þorbjörnsson

Guðni rifjaði einnig í tölu sinni upp ummæli forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, sem sagði í viðtali við New York Times í árslok 2015 að Kanada gæti orðið fyrsta ríkið sem gæti fært sig frá þjóðernishyggju (e. post national state). Þar hefði Trudeau sagt að kanadíska þjóðin hefði enga grunnsjálfsmynd (e. core identity) - án þess að uppi hefði orðið fótur og fit eftir ummælin.

„Getið þið ímyndað ykkur evrópska stjórnmálamenn segja það? Eða danska forsætisráðherrann segja: Við höfum enga grunnsjálfsmynd. Við eigum engin sameiginleg gildi eða menningarlega sjálfsmynd?“ spurði Guðni og efaðist sjálfur um það.

Rit stjórnmálaheimspekingsins Francis Fukuyama um Endalok sögunnar eftir fall Sovétríkjanna og kommúnismans, fjallaði m.a. um að framtíðin væri sameiginlegur vegur mannkyns án landamæra. „Erum við komin á tímabil án þjóðernishyggju? Ekki ef maður spyr suma þjóðarleiðtoga í Evrópu í dag sem sjá jafnvel árið 2017 sem árið þegar þjóðríkið mun hljóta endurnýjun lífdaga,“ sagði Guðni.

Undir lok ræðunnar ræddi Guðni einnig sýn sína á hlutverk þjóðhöfðingja. Að það væri meðal annars að horfa jákvæðum augum á framtíðina, að sameina fólk en þó ekki með þeim hætti að nýta sér á einhvern hátt „falsaða“ mynd af fortíðinni eins og hann orðaði það. „Nú er ég alveg að verða kominn yfir á tíma, en það eru nú ein af forréttindum mínum sem þjóðhöfðingi,” sagði Guðni við mikinn hlátur viðstaddra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert