Um fimmtíu konur komu á síðasta ári

Kristján Skúli Ásgeirsson.
Kristján Skúli Ásgeirsson. mbl.is/Árni Sæberg

„Í Færeyjum er vandamálið það sama og hér, það hefur skort aðgengi að legudeildum og skurðstofum,“ segir Kristján Skúli Ásgeirsson, sérhæfður brjóstaskurðlæknir hjá Klíníkinni, en hann hefur ásamt Rógva W. Rasmussen, sérhæfðum röntgenlækni, sinnt meðferð allra færeyskra kvenna sem greinst hafa með brjóstakrabba þar í um eitt og hálft ár samkvæmt samningi milli heilbrigðisyfirvalda þar og Klíníkurinnar.

Á síðastliðnu ári komu rúmlega 50 konur frá Færeyjum til Íslands í meðferð vegna nýgreinds brjóstakrabbameins eða brjóstauppbyggingar og búist er við að þær verði fleiri á þessu ári. „Þetta samstarf hefur gengið það vel, að fyrst var samið um að gera þetta til reynslu, en síðan var það framlengt,“ segir Kristján Skúli.

„Færeysk heilbrigðisyfirvöld kynntu sér aðstöðuna á Klíníkinni, og vildu bara fá góða þjónustu og örugga aðstöðu, og heilbrigðiskerfið þeirra borgar fyrir þetta, ekki sjúklingarnir.“ Þar sé það metið hagkvæmt að fljúga með sjúklingana yfir hafið til Íslands, enda talið tryggt að konurnar séu hér í öruggum höndum.

„Ég myndi gjarnan vilja að íslenskar konur gætu komið í Klíníkina líkt og hinar færeysku en kerfið hér er af einhverjum ástæðum þyngra í vöfum og þó að það sé öllum ljóst að of mörgum verkefnum er hlaðið á Landspítalann, þá er það álit sumra að þessar aðgerðir eiga einungis að framkvæma þar, þó sjúklingamiðuð rök skorti oft á tíðum fyrir því sjónarmiði,“ segir Kristján Skúli. Hann vísar til reynslu sinnar frá Bretlandi, þar sem hann starfi meirihluta ársins. „Þar eru um 65-70% af öllum aðgerðum vegna brjóstakrabbameins gerðar á sérhæfðum dagdeildarklíníkum sem eru í nálægð við spítala en ekki á þeim sjálfum,“ segir Kristján Skúli. „Mikil stoðþjónusta utan sjúkrahússins er til staðar og svo hafa konur opið aðgengi að brjóstadeildinni (Nottingham Breast Institute) dagana eftir aðgerð, ef einhver vandamál koma upp. Þessar aðgerðir eru mjög öruggar og hægt að gera á hagkvæman hátt utan spítalans. Færeyingar sjá sinn hag í því að gera þetta hjá okkur, og við vonumst til að íslensk stjórnvöld færist nær því að setja sjúklingana sjálfa í fyrsta sæti og gefi þeim tækifæri til að fá skjóta og örugga þjónustu þar sem sérþekkingin er til staðar,“ segir Kristján Skúli.

Eitt af því sem hefur staðið Klíníkinni fyrir þrifum er skortur á samningi við Sjúkratryggingar um myndgreiningarþátt krabbameinsleitarinnar, en verið er að vinna að því að fá slíkan samning. Kristján Skúli segir að það væri til mikilla bóta að fá slíkan samning, enda gæti það stytt biðtíma sjúklinga eftir greiningu.

Leyfi veitt til að reka leigudeild

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert