Ein umferðarregla: það eru engar reglur

Margt skemmtilegt er hægt að gera á Indlandi og þeir …
Margt skemmtilegt er hægt að gera á Indlandi og þeir létu það ekki framhjá sér fara, íslensku feðgarnir og frændurnir. Guðmundur yngri fremstur, síðan Gísli föðurbróðir hans en aftast er Þorgrímur sonur Þóris.

Þeir fóru sex saman í mótorhjólaferð til Indlands; feðgar, vinir og frændur. „Þetta var rosalega mikil upplifun. Þó að ég hafi farið víða, til dæmis til Kúbu og Kína, er Indland engu öðru líkt,“ segir Þórir Ríkharðsson, einn úr hópnum.

Þetta hófst allt á því að Guðmundi vini mínum Ástþórssyni datt í hug að bjóða afadrengnum sínum og alnafna með sér til Indlands í tilefni af því að pilturinn var að fermast. Mig dauðlangaði með, enda hafði ég aldrei komið til Indlands, og þetta vatt upp á sig, tveir synir Guðmundar slógust í hópinn og líka Grímur sonur minn. Á endanum fórum við sex karlar í þetta dásamlega feðgaferðalag, þar sem sá yngsti var 14 ára en sá elsti 55 ára,“ segir Þórir Ríkharðsson matreiðslumaður, sem nýlega kom heim úr vel lukkaðri mótorhjólaferð til Kerala á Indlandi.

„Við Guðmundur ákváðum að nýta ferðina til að skoða indverska veitingastaði og kynna okkur enn frekar indverska matargerð, til að nýta hér heima á Íslandi á indverska veitingastaðnum Gandhi sem við eigum saman í miðbæ Reykjavíkur, en þar starfa indverskir kokkar. Staðinn settum við á laggir í framhaldi af því að Guðmundur hafði dvalið nokkrum sinnum á Indlandi í tengslum við Secret Garden, hótel sem hann er meðeigandi í ásamt Þóru Guðmundsdóttur sem hefur rekið það í tuttugu ár úti í Cochin í Kerala, sem er syðst á Indlandi.“

Svalir hjólakappar. Þórir fremst ásamt Guðmundi og Gísli á milli …
Svalir hjólakappar. Þórir fremst ásamt Guðmundi og Gísli á milli þeirra.

Sömu lögmál og á krossurum

Feðgahópurinn byrjaði á því að heimsækja Þóru á Secret Garden og þar gistu þeir fyrstu þrjár næturnar.

„Við skoðuðum okkur um í Cochin, sem er friðsæll og notalegur bær, en svo ákváðum við að halda til fjalla og leigðum okkur fimm mótorhjól. Fermingardrengurinn var ekki með aldur til að aka, svo hann sat aftan á hjá pabba sínum. Síðan var bara lagt í hann og við brunuðum til Munar, sem er svæði uppi í fjöllunum, en þangað er 130 kílómetra löng leið. Þetta var ævintýri líkast, umferðin á Indlandi er mjög kaótísk, maður getur í raun allt eftir að hafa farið í gegnum hana á mótorhjóli. Eina reglan í umferðinni þarna er sú að það eru engar reglur,“ segir Þórir og hlær. „Þetta hefði aldrei gengið upp nema af því við erum allir vanir að vera á mótorhjólum. Við höfum verið á mótorkrosshjólum hér heima á Íslandi og það kom sér vel, því þetta voru svipuð lögmál við aksturinn. Við þurftum oft að taka snöggar ákvarðanir, því annars var hætta á að missa af öllum hinum. Ef maður týnist þarna í umferðinni í mannmergðinni er maður svo sannarlega týndur,“ segir Þórir og hlær.

Guðmundur lengst t.h., við hlið hans Þorgrímur sonur Þóris, þá …
Guðmundur lengst t.h., við hlið hans Þorgrímur sonur Þóris, þá feðgarnir Ástþór og Guðmundur yngri. Indversku drengirnir vildu vera með á myndinni.

Matur skiptir öllu máli

„Við fengum mikla útrás fyrir spennufíkn okkar á mótorhjólunum, og fermingardrengurinn var alsæll að fá að sitja aftan á Royal Enfield, sem er kraftmikið og stórt indverskt mótorhjól,“ segir Þórir og bætir við að náttúrufegurð á fjallasvæðinu sé mikil og að þar hafi þeir m.a skoðað teakra og farið á fílsbak.

„Þetta var rosalega mikil upplifun. Þó að ég hafi farið víða, til dæmis til Kúbu og Kína, er Indland engu öðru líkt. Það var frábært að þvælast þarna um í fjöllunum og gista á fjallahóteli. Við ferðuðumst samtals 300 kílómetra á hjólunum, frá Cochin til Munar og til baka. Við stoppuðum á leiðinni á alls konar veitingastöðum og heimsóttum líka matsölustaði í Munar.

Matur skiptir mig öllu máli þegar ég ferðast, og Indland hefur upp á mikið að bjóða í þeim efnum, með þessa gömlu kryddmenningu og fjölbreytta bragðflóru. Við Guðmundur söfnuðum að okkur fjölmörgum hugmyndum á þessu ferðalagi og smökkuðum alls konar rétti sem við ætlum að bjóða upp á hér heima á Gandhi. Við sáum líka að indversku kokkarnir okkar á Gandhi eru að standa sig mjög vel, enda þýðir ekkert að opna indverskan stað á Íslandi án þess að vera með indverska matreiðslumenn. Sem betur fer eru Íslendingar orðnir svo ferðavanir að þeir gera kröfu um alvöru indverskan mat. Þetta eru þúsund ára hefðir í matargerð og það gengur alls ekki að ætla að stytta sér leið í þeim málum,“ segir Þórir og bætir við að gestir Gandhi í Reykjavík séu að stórum hluta ferðamenn nú orðið. „Indverskir ferðamenn streyma til okkar og við þjónustum líka indverska ferðahópa, sendum til þeirra mat. Indversku kokkarnir okkar sáu til dæmis um að elda ofan í kvikmyndagerðarfólkið sem kom til Íslands að taka upp Bollywood-myndband.“

nGuðmundur, sá yngsti í hópnum, prófar jóga á sundlaugarbakkanum, en …
nGuðmundur, sá yngsti í hópnum, prófar jóga á sundlaugarbakkanum, en hann fékk Indlandsferðina í fermingargjöf frá afa sínum og nafna.

Vissi ekki hvaða dagur var

Mótorhjólakapparnir gistu í Secret Garden hjá Þóru áður en þeir flugu heim til Íslands, en Guðmundur vinur Þóris varð eftir ásamt Gísla syni sínum sem fór upp í fjöllin í jógaskóla.

„Mig langaði strax aftur út þegar ég heyrði í Guðmundi þarna suðurfrá,“ segir Þórir, sem er harðákveðinn í að fara aftur til Indlands, enda alveg heillaður. „Ég varð svo slakur þarna, ég vissi ekki hvaða dagur var. Þetta gerði mér gott og ég naut alls í botn. Ég hef verið veitingamaður í þrjátíu ár en þetta var mikill skóli fyrir mig. Maður áttar sig á því að bestu veitingastaðir alls staðar í heiminum byggjast upp á fjölskyldum, af því þá stendur fólki ekki á sama, rétt eins og hjá mér hér á Íslandi á Pottinum og pönnunni. Konan mín er matreiðslumaður og dóttir mín er að læra þjóninn og sonur minn vinnur líka hér. Þetta væri ekki hægt ef við værum ekki að gera þetta saman.“

Margt skemmtilegt er hægt að gera á Indlandi og þeir …
Margt skemmtilegt er hægt að gera á Indlandi og þeir létu það ekki framhjá sér fara.
Guðmundur, sá yngsti í hópnum, á indverskri strönd.
Guðmundur, sá yngsti í hópnum, á indverskri strönd.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert