Mat á snjóflóðahættu „löngu tímabært“

Sjúkrabíll við Esjuna í gærkvöld.
Sjúkrabíll við Esjuna í gærkvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það er löngu orðið tímabært að gefnar séu út snjóflóðaspár eða mat á snjóflóðahættu á Esju og á fleiri vinsælum útivistarsvæðum á landinu. Þetta segir Jónas Guðmundsson hjá Landsbjörg, sem í gær stýrði björgunaraðgerðum á Esju. Tveimur mönnum var bjargað en sá þriðji lést. Þetta er ekki fyrsta banaslysið af völdum snjóflóðs í Esjunni.

Frétt mbl.is: Lét lífið í Esjunni 

Hver mínúta getur skipt sköpum

Björgunarsveitum barst kall um aðstoð vegna flóðsins um klukkan fimm í gær. „Við erum með svokallaða boðunaráætlun, sem er bara ákveðið plan sem fer af stað þegar um snjóflóð er að ræða í fjalllendi í grennd við höfuðborgarsvæðið. Það gerir ráð fyrir því að það eru raunverulega bara allir kallaðir út vegna þess að tíminn skiptir sköpum,“ segir Jónas í samtali við mbl.is. „Lífslíkur fólks í snjóflóði minnka mjög hratt eftir því sem hver mínúta líður, þannig að það er settur bara allur mannskapur af stað í þetta,“ segir Jónas. 

Aðstæður voru mjög erfiðar í fjallinu í gær og ekki bætti úr skák að fljótlega tók að dimma. Það hægði á aðgerðum en að sögn Jónasar kom hraðinn ekki að sök eftir á að hyggja.

Myrkur skall fljótt á og aðstæður voru erfiðar á Esjunni.
Myrkur skall fljótt á og aðstæður voru erfiðar á Esjunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jónas segir viðbragðsaðila hafa verið tiltölulega snögga á staðinn en það tók björgunarsveitir um hálfa klukkustund að komast á vettvang frá því að lagt var á fjallið upp úr Þverárdal við bæinn Hrafnhóla. Þaðan er stysta leiðin að svæðinu að sögn Jónasar en fara þarf yfir einn háls. 

Snjóflóðið féll í Grafardal, efst í hlíðunum við Hátind skammt frá Hábungu sem er hæsti hluti Esju og er í um 3-4 km fjarlægð frá vinsælustu gönguleiðunum upp Esju. Þangað héldu björgunarsveitir í leit að fjallgöngumönnunum. Tveimur þeirra tókst að komast úr flóðinu af sjálfs­dáðum og voru fluttir slasaðir á sjúkrahús en sá þriðji lést. 

Frétt mbl.is: Á annað hundrað leita mannsins

Um 70-80 björgunarsveitamenn tóku þátt í aðgerðum í fjallinu og á svæðinu í kring og höfðu 30-40 til viðbótar verið kallaðir út í viðbragðsstöðu til vonar og vara. „Bæði ef þetta myndi dragast á langinn og eins bara til öryggis en við setjum alltaf upp svona öryggishópa þegar það er verið að vinna í svona aðstæðum, sem geti þá farið bara hratt inn á svæðið ef eitthvað kemur fyrir okkar fólk,“ segir Jónas.

Björgunarsveitarfólk að störfum á Esju í gærkvöld.
Björgunarsveitarfólk að störfum á Esju í gærkvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Annað dauðsfallið á nokkrum árum

Spurður hvort hann þekki fleiri dæmi um slys vegna snjóflóða á Esju segir Jónas þau hafa verið nokkur. „Það var nú banaslys þarna bara fyrir örfáum árum síðan, þrjú ár kannski síðan á að giska,“ segir Jónas, „eiginlega bara á sömu gönguleið má segja.“

Ekki er um að ræða merkta leið eða göngustíg en engu að síður þekkta leið sem gjarnan er farin. „Fólk fer þessa leið á Esju en hún er náttúrlega mjög erfið. Þetta er langt frá því fyrir hvern sem er, sérstaklega í þessum aðstæðum sem þarna voru í gær,“ segir Jónas. Eins og aðstæður voru í gær þarf sérstakan búnað til að klífa fjallið að sögn Jónasar, en bæði vel sem illa búnum getur þó stafað hætta af snjóflóði.

Meta aðeins þrjá staði á landinu

Spurður hvort hann telji slysið í gær gefa tilefni til að grípa til einhverra fyrirbyggjandi ráðstafana segir Jónas svo vera.

„Það er nú þannig að Veðurstofan metur eingöngu snjóflóðahættu á þremur stöðum á landinu. Það er á norðanverðum Vestfjörðum og Tröllaskaga og Austfjörðum. Það er náttúrulega bara löngu kominn tími á það að þetta sé útvíkkað,“ segir Jónas. Hann segir brýnt að fylgst sé grannt með og gefnar séu út bæði spár og viðvaranir vegna aðstæðna á vinsælum útivistar- og ferðamannastöðum um landið.

Um 70-80 björgunarsveitarmenn tóku þátt í björgunaraðgerðum á Esjunni í …
Um 70-80 björgunarsveitarmenn tóku þátt í björgunaraðgerðum á Esjunni í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við höfum minnst á þetta við Veðurstofuna en ég reikna með að þetta sé nú kannski fjármagn og eitthvað skipulag hjá þeim. En það er löngu tímabært að Veðurstofan gefi út mat á snjóflóðahættu fyrir Esju og jafnvel fleiri staði. Fjöldinn sem er þarna er það mikill að það er bara löngu orðið tímabært,“ útskýrir Jónas.

Segir hann þetta hiklaust vera nokkuð sem þurfi að gera og ætti í raun að vera komið af stað. „Það náttúrulega verður að segjast, alveg hreinskilnislega. Það er víða orðið þannig, bæði út af ferðamönnum og útivistaráhuga Íslendinga, að bæði sértækar veðurspár, bæði fyrir ákveðin fjöll og ferðamannasvæði og þetta mat á snjóflóðahættu, er eitthvað sem ætti að vera löngu komið lengra,“ segir Jónas.

Björgunaraðgerðir á Esju.
Björgunaraðgerðir á Esju. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert