Skattsvik með rangri verðlagningu

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Vísbendingar um ólöglega milliverðlagningu komu fram í vinnu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandsfélögum þar sem inn- og útflutningsverð er rangt skráð í hagnaðarskyni. Telur formaður starfshópsins, Sigurður Ingólfsson, ástæðu til að rannsaka málið frekar.

Fjallað var um málið í Kastljósi Ríkisútvarpsins í kvöld. Farið var yfir dæmi um slíkt í sögu Íslands en slík vinnubrögð fela í sér skattaundanskot og þýða oftar en ekki hærra verð á innfluttri vöru. Starfshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að samanburðaraðferðir sem notaðar eru erlendis dugi skammt til þess að áætla umfang slíkra vinnubragða hér á landi.

Hins vegar kunni að vera að um 120 milljörðum króna hafi varlega áætlað verið komið undan skatti með þessum hætti á undanförnum tveimur áratugum byggt á þeim gögnum sem fyrir liggja og að slíkt hafi náð til um 10% af inn- og útflutningi.

Enn fremur kom fram að ríkissjóður hefði orðið af allt að 7 milljörðum króna á ári frá 1990 vegna fjármuna sem fluttir voru í skattskjól.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert