Þar sem bert hjartað slær

Gautur Hansen og Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlæknir nokkrum dögum eftir aðgerðina.
Gautur Hansen og Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlæknir nokkrum dögum eftir aðgerðina. RAX,Rax / Ragnar Axelsson

„Sjáiði! Þetta er auðvitað fallegasta líffærið. Um það verður ekki deilt,“ segir Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlæknir og gefur okkur merki um að gægjast niður í brjóst sjúklingsins á skurðarborðinu. Gollurshúsið hefur verið opnað og sjálft hjartað blasir við; slær berskjaldað í þéttum takti, eins og stofuklukkan í Brekkukotsannál sem sagði sællar minningar „eilíbbð, eilíbbð“. Ekki svo að skilja að tilgangurinn sé að færa sjúklingnum eilíft líf en gangi allt að óskum munu lífslíkur hans aukast umtalsvert. Kransæðarnar voru nefnilega orðnar verulega stíflaðar og án inngrips í formi kransæðahjáveituaðgerðar væri hann í bráðri lífshættu.

„Við skurðlæknar erum auðvitað alltaf að metast og ég segi gjarnan við ristil- og þvagfæraskurðlæknana að það að krukka í hjörtu sé eins og að vera flugstjóri hjá Austrian Airlines og hafa Alpana fyrir augunum á hverjum degi,“ heldur Tómas áfram.
Já, því er misskipt, útsýni sérgreinanna, nú eða stéttanna yfir höfuð!

Gautur og eiginkona hans, Anna A. Ingvadóttir, heima í Ólafsvík …
Gautur og eiginkona hans, Anna A. Ingvadóttir, heima í Ólafsvík þremur vikum eftir aðgerð. RAX

Hálfri annarri klukkustund áður liggur sjúklingurinn tilbúinn á skurðarborðinu á skurðstofu 5 á Landspítalanum. Hann hefur verið svæfður og bíður þess æðrulaus er verða vill. Aðgerðarteymið er að koma sér fyrir, hver hlekkur hefur sínu hlutverki að gegna í keðjunni. Frammi á gangi eru hjartaskurðlæknarnir Tómas Guðbjartsson og nafni hans Tómas Þór Kristjánsson að þvo sér vel og vandlega með sótthreinsandi sápu. Framundan er opin hjartaaðgerð, nánar tiltekið kransæðahjáveituaðgerð, og í slíkum aðgerðum eru skurðlæknarnir alltaf tveir. Kransæðahjáveituaðgerð er mun flóknari aðgerð en kransæðavíkkun, sem oft dugar til, en ekki ef þrengslin eru í helstu kransæðagreinum eða þegar kransæðar eru alveg stíflaðar. Og þótt opin hjartaaðgerð sé mun umfangsmeiri en kransæðavíkkun þá er árangurinn til lengri tíma alla jafna betri. Batinn er varanlegri og minni líkur á að sjúklingurinn þurfi að koma aftur á sjúkrahús vegna hjartavandamála.

Frá aðgerðinni á Landspítalanum.
Frá aðgerðinni á Landspítalanum. RAX

Læknarnir eru færðir í þar til gerða sloppa, setja á sig tvöfalda gúmmíhanska og bera grímu fyrir vitum. Allt er í mannlegu valdi gert til að draga úr hættu á sýkingu. Skurðlæknarnir bera sérstök gleraugu með stækkunarglerjum sem gera þeim kleift að sjá betur smæstu kransæðar. Ekki veitir af, sumt sem býr í brjóstinu er svo smátt að það blasir ekki við beru auganu.
Þegar skurðlæknarnir hafa komið sér fyrir er gátlistinn dreginn fram; hver er sjúklingurinn, hvað amar að honum, hvaða aðgerð á að framkvæma og þar fram eftir götunum. Sjálfsagt ekkert ólíkt því sem á sér stað í flugstjórnarklefa breiðþotu fyrir flugtak. Allt stemmir og Tómas Guðbjartsson tekur af skarið: „Jæja, þá hefjumst við handa!“

Hjartaskurðlæknarnir Tómas Þór Kristjánsson og Tómas Guðbjartsson að störfum.
Hjartaskurðlæknarnir Tómas Þór Kristjánsson og Tómas Guðbjartsson að störfum. RAX

Nánar um aðgerðina í máli og myndum í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en sjúklingurinn, Gautur Hansen frá Ólafsvík, hafði bæði fyrir og eftir aðgerðina góðfúslega samþykkt að segja lesendum sögu sína.

Aðgerðin heppnaðist ljómandi vel og nú, nokkrum vikum síðar, er Gautur á góðum batavegi. Skammur aðdragandi var að veikindunum en Gautur var hætt kominn á ferðalagi í Þýskalandi með stíflur í þremur helstu kransæðum. Við komuna heim var hann drifinn beint í aðgerð.

Gautur viðurkennir að dauðinn hafi komið upp í hugann eftir að hann veiktist; ekki þó endilega í sambandi við aðgerðina. „Ég var nokkuð bjartsýnn á hana eftir útskýringar Tómasar en hugsa meira um það sem hefði getað gerst úti í Þýskalandi. Ég var mun veikari en ég gerði mér grein fyrir og er heppinn að ekki fór verr.“

Skurðlæknarnir nota sérstök gleraugu með stækkunarglerjum við aðgerðir sem þessa.
Skurðlæknarnir nota sérstök gleraugu með stækkunarglerjum við aðgerðir sem þessa. RAX
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert