Vara við ofsaveðri í fyrramálið

Tvær óveðurslægðir fara yfir landið næsta sólarhringinn.
Tvær óveðurslægðir fara yfir landið næsta sólarhringinn. mbl.is/RAX

Fólki er bent á að huga að lausamunum þegar tvær óveðurslægðir fara yfir landið næsta sólarhringinn. Allmikið lægðardrag með roki og rigningu fer yfir Suður- og Vesturland í nótt. Í kjölfarið fylgir kröpp lægðarbóla sem myndast suður í hafi og veldur hvelli vestanlands í fyrramálið.

Þorsteinn Jónsson, veðurfræðingur á vakt á Veðurstofu Ísland, segir lægðarbóluna jafnvel valda ofsaveðri vestan- og norðvestanlands. Þá verði bálhvasst inni á hálendinu. „Þar getur jafnvel orðið fárviðri í nótt og fyrramálið,“ segir Þorsteinn. Það dregur síðan töluvert úr vindinum síðdegis á morgun.

Veðrið segir hann verða verst við vesturströndina, á Reykjanesskaga og Snæfellsnesinu. „Þar er möguleiki á fokskemmdum.“ Einnig megi þá búast við að verulega hvasst verði á Kjalarnesi, undir Hafnarfjalli, inni á Húnaflóa og á Holtavörðuheiðinni.

Á Reykjanesskaga má búast við að vindhraðinn í fyrramálið verði á bilinu 23-28 m/s, sem gæti mögulega leitt til truflana á flugi. Vindhraði í verstu hviðunum getur svo náð allt að 35-40 m/s.

Á vef  Vegagerðarinnar er varað sérstaklega við aðstæðum á Reykjanesbraut á milli kl. 09 og 11 í fyrramálið, þar sem vindur sem nái allt að 35 m/s í verstu hviðunum muni liggja þvert veginn. Þá verður slagveðursrigning á sama tíma og vatn í hjólförum.  

„En sem betur fer fer þetta hratt yfir,“ segir Þorsteinn og kveður veðrið verða að mestu gengið niður um þrjúleytið á morgun.

Hreinsi vel frá niðurföllum

Einnig er búist við miklu vatnsveðri á Suðausturlandi og Austfjörðum næsta sólarhringinn og er búist við allt að 100 mm af rigningu. Íbúum í þeim landshluta er því bent á að huga að niðurföllum, en að sögn Þorsteins má búast við að ár og lækir kunni að bólgna og jafnvel kunni einhverjar skriður að falla.

„Það er mikið að gerast í veðrinu,“ segir hann. Eftir að lægðarbólan gengur niður á morgun, er þó ekki von á frekara ofsaveðri á næstunni. Engu að síður verður þó mjög stíf sunnanátt og úrkomusamt víða á landinu. Þá má búast við að það kólni næstu daga og því gæti komið slydda eða snjókoma á Vesturlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert