Komin með tilboðið í hendurnar

Jens Garðar Helgason, formaður SFS.
Jens Garðar Helgason, formaður SFS. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Samninganefnd Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, hefur fengið tilboð í hendurnar frá samninganefnd sjómanna vegna yfirstandandi kjaradeilu. Þetta staðfestir Jens Garðar Helgason, formaður SFS í samtali við mbl.is. 

„Við hérna í samninganefndinni vorum bara að fá tilboð í hendurnar,“ segir Jens Garðar. „Að sjálfsögðu eru öll tilboð skoðuð og við munum að sjálfsögðu núna, við samninganefndin okkar, heyrast á eftir og svo bara sjáum við til með framhaldið.“ 

Spurður hvort hann bindi vonir við tilboðið segir Jens Garðar of snemmt að segja nokkuð til um það. „Ég var bara fyrir örskömmu síðan að fá tilboðið í hendurnar þannig að ég á nú alveg eftir að átta mig svona heilt yfir á því og reikna og fleira. Þannig að ég get ekkert sagt um það að svo stöddu.“ 

Jens fer fyrir samninganefnd SFS og gerir hann ráð fyrir að nefndin muni funda fljótlega í kvöld og síðan ræða við fulltrúa sjómanna í framhaldinu. Telur hann þó líklegt að það verði ekki fyrr en í fyrsta lagi á morgun. Jens vill þó ekki veita frekari upplýsingar að svo stöddu um eðli tilboðsins. „Við erum náttúrlega bundin bara fréttabanni,“ segir Jens Garðar. „Mér hefur líka sýnst það bara að fæst orð bera minnsta ábyrgð í þessu og það mættu fleiri tileinka sér það.“ 

Spurður hvort hafi verið til umræðu hjá samninganefnd SFS að gefa frekar eftir kröfur sjómanna segir Jens Garðar: „Í þessu verkfalli og þessum samningaviðræðum þá náttúrlega hafa menn verið að kasta fram og til baka ýmsum hugmyndum. Og auðvitað er það bara eðli samninga, að menn vonandi á einhverjum tímapunkti komast að niðurstöðu.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert