Skyndiflóð og langvarandi þurrkar

This file photo taken on May 21, 2015 Úganda er …
This file photo taken on May 21, 2015 Úganda er oft kallað perla Afríku vegna náttúrulífsins. Nú eru þurrkar í norðanverðu landinu og lífskjör fólks hafa versnað til muna. AFP

Í samstarfsríkjum Íslendinga í alþjóðlegri þróunarsamvinnu; Malaví, Mósambík og Úganda, eru ýmist flóð eða þurrkar en hvoru tveggja veldur spjöllum á landi og uppskerubresti. Síðustu mánuði hafa borist fréttir af miklum öfgum í veðurfari í sunnanverðri Afríku.

Í Heimsljósi, vefriti um þróunarmál, segir að í Úganda séu þurrkar, í Malaví flóð og bæði þurrkar og flóð í Mósambík.

Að sögn Ágústu Gísladóttur forstöðumanns sendiráðs Íslands íLilongve hefur úrkoma í Malaví verið með mesta móti í ár og valdið flóðum og meðfylgjandi vandræðum í 27 héruðum. Um 22 þúsund heimili hafa orðið fyrir skaða af völdum flóða.

Hún segir að eftir miklar rigningar í höfuðborginni Lilongve á föstudag hafi komið skyndiflóð í Lingazi-ána með hörmulegum afleiðingum. Tvö skólabörn sem lentu í flóðinu á leiðinni í skólann björguðust naumlega með aðstoð þyrlu en að minnsta kosti þrír Malavar drukknuðu. Ágústa segir að aukin flóð á regntímanum á undanförnum árum séu meðal annars rakin til mikillar skógareyðingar í landinu.

Skyndiflóð hafa orðið í Malaví síðustu daga.
Skyndiflóð hafa orðið í Malaví síðustu daga. AFP

Þurrkar í Úganda

Stefán Jón Hafstein forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala segir að Úgandabúar hafi gengið í gegnum erfitt þurrkaskeið undanfarna mánuði og nú sé talið að hátt í ein og hálf milljón manna glími við fæðuskort vegna uppskerubrests. Hann segir mataraðstoð nú veitta á afmörkuðum stöðum í Norður-Úganda. Það veki miklar áhyggjur að vatnsborð stöðuvatna hafi lækkað mikið og þar með dregið úr möguleikum í að afla vatns og veita á akra.

Stefán segir að enn hafi ekki verið lýst yfir neyðarástandi en ljóst sé af umfjöllun fjölmiðla að áhyggjur fari mjög vaxandi. Bregðist rigningar í mars og apríl eins og flest bendi til verði ástandið mjög alvarlegt.  

Þurrkar og flóð í Mósambík

Eftir mikla þurrkatíð 2015-16 í Mósambík er aðeins að rofa til, að sögn Vilhjálms Wiium forstöðumanns sendiráðs Íslands í Mapútó. Hann segir að uppskera síðasta árs hafi brugðist á mörgum stöðum vegna þurrka og hátt í tvær milljónir manna þiggi nú mataraðstoð vegna þessa. „Eins og oft gerist hér þá er skammt stórra högga á milli. Frá því í desember hefur rignt ágætlega á mörgum stöðum í landinu. En, sumstaðar í suður- og miðhluta landsins hefur rigningin verið töluvert meiri en í meðalári og hefur valdið staðbundnum flóðum því ár hafa flætt yfir bakka sína,“ segir hann í Heimsljósi. Vilhjálmur nefnir að einhverjir hafi látist í flóðunum, fólk hafi þurft að flýja heimili sín, ræktarland hafi eyðilagst og skólar og heilsugæslustöðvar hafi skemmst. Þá er óttast að flóðin muni aukast á næstunni. Á sama tíma sé vatnsskortur allra syðst í landinu og allra nyrst hafi rigningin komið mun seinna en í meðalári og hafi verið lítil. Uppskerutímabilið - apríl, maí - nálgist og menn óttist að bæði þurrkar og flóð valdi slakri uppskeru í ár.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert