Bar ekki ábyrgð á rekstri félagsins

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hæstiréttur sýknaði í dag konu af ákæru um brot á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa í starfi sínu sem framkvæmdastjóri og stjórnarformaður einkahlutafélags látið hjá líða að skila virðisaukaskattsskýrslum og staðgreiðsluskilagreinum félagsins fyrir ákveðin tímabil á árunum 2011 til 2013 samkvæmt lögum og standa skil á slíkum gjöldum.

Héraðsdómur Reykjaness hafði áður dæmt konuna í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 34,5 milljón króna í sekt. Þá hafði konan verið dæmd til þess að greiða málsvarnarlaun upp á rúmlega 818 þúsund krónur. Eiginmaður konunnar var einnig dæmur í héraði í sama máli í tíu mánaða skilorðabundið fangelsi og til að greiða 40,9 milljónir króna í sekt.

Hæstaréttar komst að þeirri niðurstöðu að konan hefði í reynd ekki komið að rekstri félagsins þrátt fyrir skráða stöðu sína heldur hefði eiginmaður hennar borið ábyrgð á rekstrinum og þar með borið fulla ábyrgð á skattskilum þess. Var því talið að konan bæri ekki refsiábyrgð á þeirri háttsemi sem hún var sökuð um og var hún af þeim sökum sýknuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert